Átak í að fá fleiri konur í fluggeirann

Starfsmenn flugfélaga eru í miklum meirihluta karlkyns. Næstu fimm ár á að grípa til aðgerða til að gera hlut kvenna stærri.

flug danist soh
Mynd: Danist Soh

Í stjórn IATA, alþjóðasamtaka flugfélaga, eiga sæti 29 karlar og ein kona. Nú á hins vegar að grípa til aðgerða til að koma hlutfalli kvenna í stjórninni upp í fjórðung fyrir árslok 2025. Á sama tíma skorar IATA á aðildarfélög sín að fjölga konum í stjórnunarstöðum upp í sama hlutfall samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu samtakanna.

Einnig á að fá fleiri konur til starfa á þeim sviðum þar sem karlar eru í dag í miklum minnihluta. Ekki er tekið fram sérstaklega hvað svið það eru en gera má ráð fyrir þar sé meðal annars horft til flugmanna og flugstjóra og jafnvel flugvirkja.

En líkt og Túristi greindi frá um daginn þá er hlutfall flugkvenna hjá Icelandair hærra en hjá öðrum vestrænum flugfélögum. Þar er það þrettán prósent sem er þá töluvert undir markmiði IATA um að fjórði hver starfsmaður sé kona.

Icelandair er félagi í IATA en í dag eru þrír af átta framkvæmdastjórum flugfélagsins konur.