Átak í að fá fleiri konur í flug­geirann

Starfsmenn flugfélaga eru í miklum meirihluta karlkyns. Næstu fimm ár á að grípa til aðgerða til að gera hlut kvenna stærri.

flug danist soh
Mynd: Danist Soh

Í stjórn IATA, alþjóða­sam­taka flug­fé­laga, eiga sæti 29 karlar og ein kona. Nú á hins vegar að grípa til aðgerða til að koma hlut­falli kvenna í stjórn­inni upp í fjórðung fyrir árslok 2025. Á sama tíma skorar IATA á aðild­ar­félög sín að fjölga konum í stjórn­un­ar­stöðum upp í sama hlut­fall samkvæmt því sem fram kemur á heima­síðu samtak­anna.

Einnig á að fá fleiri konur til starfa á þeim sviðum þar sem karlar eru í dag í miklum minni­hluta. Ekki er tekið fram sérstak­lega hvað svið það eru en gera má ráð fyrir þar sé meðal annars horft til flug­manna og flug­stjóra og jafnvel flug­virkja.

En líkt og Túristi greindi frá um daginn þá er hlut­fall flug­kvenna hjá Icelandair hærra en hjá öðrum vest­rænum flug­fé­lögum. Þar er það þrettán prósent sem er þá tölu­vert undir mark­miði IATA um að fjórði hver starfs­maður sé kona.

Icelandair er félagi í IATA en í dag eru þrír af átta fram­kvæmda­stjórum flug­fé­lagsins konur.