Samfélagsmiðlar

Beðið eftir WAB

Það lítur út fyrir að WOW air muni einbeita sér að fraktflugi fyrst um sinn. Ennþá er ekki ljóst hver staðan er á flugfélaginu sem kennt er við WAB jafnvel þó tímabært sé að hefja sölu á sumarferðum næsta árs.

Það eru liðnir nærri fjórir mánuðir frá því að Fréttablaðið, fyrst fjölmiðla, sagði frá áformum tveggja af yfirmönnum WOW air um stofnun nýs lággjaldaflugfélags sem fjármagnað yrði að mestu af tengdasyni eins af stofnendum Ryanair flugfélagsins. Félagið fékk vinnuheitið WAB. Sama dag og fréttir af þessum áætlunum bárust þá lækkaði gengi hlutabréfa í Icelandair um fimm af hundraði og fór um leið undir 10 og hefur ekki komist svo hátt á nýjan leik.

Hálfum mánuði eftir að fréttin af WAB kom út þá birti Morgunblaðið tveggja opnu viðtal við Michele Ballarin um endurvakningu WOW air. Þar fullyrti hún að hún væri með rúma 12 milljarða króna til setja í endurreisn félagsins. Gengi Icelandair stóð hins vegar í stað eftir birtingu viðtalsins við Ballarin.

Ítrekaðar framlengingar á kyrrsetningu MAX þotanna, versnandi afkoma Icelandair á öðrum ársfjórðungi og þrálátur orðrómur um að félagið þyrfi á auknu hlutafé að halda settu svo áframhaldandi pressu á gengi hlutabréfanna í haust. Í síðustu viku rauk gengið aftur á móti upp í kauphöllinni í kjölfar heldur óskýrrar tilkynningar um afkomubata og uppgjörs fyrir þriðja ársfjórðung. Reyndar er erfitt að rýna í gang mála hjá félaginu þar sem bætur frá Boeing voru að hluta til færðar inn í bókhaldið sem farþegatekjur. Bótaupphæðin er nefnilega trúnaðarmál.

Það gæti líka hafa haft jákvæð áhrif á uppsveiflu Icelandair í kauphöllinni að nú liggur fyrir að WOW air mun ekki hefja farþegaflug til og frá landinu á næstunni heldur einbeita sér að frakt. Á sama tíma er óljóst hver staðan er á WAB verkefninu. Fyrir liggur að sótt var um flugrekstrarleyfi í sumarlok og starfsmenn hófu þá störf á skrifstofu félagsins í Hafnarfirði. Í síðustu viku sagði Túristi svo frá því að fyrrum yfirmaður leiðakerfis WOW air og núverandi starfsmaður Icelandair væri á leið yfir til WAB.

Ekkert er þó vitað um fjármögnun félagsins enda hafa forsvarsmenn WAB aldrei staðfest að Simon Whittley-Ryan, fyrrnefndur tengdasonur eins af stofnendum Ryanair, komi nærri verkefninu. Heimildir Túrista herma að leitað hafi verið til íslenska fjárfesta að undanförnu í von um safna hátt í tveimur milljörðum króna í hlutafé. Þau áform sem fjárfestunum hafa verið kynnt ganga meðal annars út á að flugfélagið flytji um hálf milljón ferðamanna til Íslands á næsta ári. Sú tala er vísbending um að flugfélagið þurfi að lágmarki 5 til 6 flugvélar af því gefnu að hlutfall erlendra ferðamanna í vélunum verði nokkuð hátt á kostnað tengifarþega til að byrja með.

Ef WAB kemst á flug á næstunni mun félagið af öllum líkum setja umtalsverða pressu á farmiðaverð Icelandair og þar á bæ er rými til verðlækkanna kannski ekki mikið. Þannig kemur það fram í nýjasta uppgjöri félagsins að meðalfargjöldin hafi lækkað í sumar þegar horft er til ferðamanna á leið til Íslands en sá markaður er nú í forgangi hjá félaginu þrátt fyrir verðþróunina. Og sem fyrr segir gæti WAB þurft að einblína á þennan markað til að byrja með áður en tengiflugið hefst.

Hinn nýi keppinautur Icelandair gæti líka sótt inn á sömu flugleiðir í Evrópu strax í upphafi. Þannig munu vera lausir afgreiðslutímar í Kastrup í Kaupmannahöfn, Charles de Gaulle í París og jafnvel í Frankfurt, þ.e. ef félagið vill ekki fylgja fordæmi Iceland Express og halda til Frankfurt Hahn. Í London þyrfti hið nýja félag að sætta sig við Stansted þar sem flugbrautirnar við Heathrow og Gatwick eru fullbókaðar. Og ekki er auðsótt að komast að í Amsterdam en flug þangað hefur verið íslenskum flugfélögum mikilvægt.

Gera má ráð fyrir að forsvarsfólk hins nýja flugfélags horfi líka til Spánar enda rík hefð fyrir ferðalögum Íslendinga þangað. Það flækir hins vegar málin að Norwegian hefur verið í mikilli sókn í flugi milli Íslands og Spánar. Suðurhluti Frakklands eða jafnvel borgir eins og Basel í Sviss, sem easyJet hefur ákveðið að hætta Íslandsflugi frá, gætu líka komið til greina.

Vestanhafs má gera ráð fyrir að Boston og Baltimore/Washington verði fyrstu áfangastaðir nýs félags á meðan óljóst er hversu lengi þarf að bíða eftir lausum tímum á flugvöllunum við New York borg. Félagið gæti þó þurft að sýna fram á reynslu af Evrópuflugi áður leyfi fæst fyrir áætlunarflugi vestur um haf.

Sem fyrr segir liggur ekki fyrir hvort eða hvenær hið nýja flugfélag fari í loftið og forsvarsmenn verkefnisins verjast allra frétta. En ef af verður nú í vetur eða vor þá er ljóst að Icelandair gæti þurft að takast á við nýja samkeppni á sama tíma og félagið er að koma MAX þotunum í loftið á ný og sannfæra farþega um að þoturnar séu traustsins verðar.

Þrátt fyrir þann veikleika hjá Icelandair þá þarf hið nýja félag að geta gengið að digrum sjóðum enda ljóst að það kostar sitt að koma flugfélagi upp úr startholnum. Þannig var taprekstur á WOW air það mikill fyrsta sumarið að Skúli Mogensen íhugaði þá að láta staðar numið.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …