Ef Icelandair myndi horfa meira til Suður-Evrópu

September og október liðu án þess að Icelandair tilkynnti um flug til nýrra áfangastaða næsta sumar. Það er þó ekki útilokað að þotur félagsins taki fljótlega stefnuna í nýjar áttir og þá jafnvel til Suður-Evrópu en þar hafa umsvif félagsins verið takmörkuð.

Það er ólíklegt að Bordeaux, Bologna og Barcelona bætist allar við leiðakerfi Icelandair á næsta ári. En sú síðastnefnda verður að teljast líklegur kandídat. Myndir: George Kedenburg III, Z Klein og Maria Bobrova / Unsplash

Það eina sem fyrir liggur varð­andi sumaráætlun Icelandair á næsta ári er að flugi til banda­rísku borg­anna San Francisco og Kansas City verður hætt. Ekki hefur hefur verið tilkynnt um neinar viðbætur en sala á ferðum til nýrra sumaráfanga­staða hefst vana­lega á haustin. Og ekki hefur fengist stað­fest hvort sætaframboð aukist, standi í stað eða minnki næsta sumar en samdrátt­urinn í síðasta mánuði nam til að mynda 13 prósentum. Gera má ráð fyrir að óvissan varð­andi kyrr­settu MAX þoturnar geri stjórn­endum Icelandair erfiðara fyrir að ganga frá flugáætlun fyrir arðbær­asta hluta ársins.

Áfram á þó að setja ferða­menn á leið til Íslands í forgang líkt og endur­tekið hefur komið fram í tilkynn­ingum félagsins. Og í því ljósi er áhuga­vert að velta fyrir sér hvort Icelandair sjái þá sókn í auknu flugi til Suður-Evrópu. Áætl­un­ar­flug félagsins til Ítalíu og Spánar hefur takmarkast við sumarflug til Madríd og Mílanó og París er eini franski áfanga­stað­urinn. Þotur Icelandair fljúga aftur á móti til nokk­urra þýskra borga og ferðir til höfuð­borga hinna Norð­ur­land­anna eru tíðar en oft áður.

Vissu­lega fækkaði ferða­fólki frá Spáni, Ítalíu og Frakklandi í sumar en hótelnóttum þjóð­anna fjölgaði aftur á móti umtals­vert. Þessar þrjár þjóðir fara líka einna víðast um landið samkvæmt landa­mæra­könnnum Ferða­mála­stofu. Þannig mælist hlut­fall franskra, spænskra og ítalskra ferða­manna hátt úti á landi og aukið fram boð á beinu flugi frá þessum löndum til Íslands gæti því verið kærkomin innspýting fyrir íslenska ferða­þjón­ustu. Á sama tíma opnast þá fleiri tæki­færi fyrir Íslend­inga í leit að ferðum til suður­hluta álfunnar.

Frakk­land

Það var góður stíg­andi í ferðum WOW til Lyon, næst fjöl­menn­ustu borg Frakk­lands, líkt og Túristi hefur áður greint frá. Þar er því hefð fyrir Íslands­flugi yfir sumar­mán­uðina sem gæti gert það meira aðlað­andi fyrir Icelandair að taka upp þráðinn. Aftur móti er ekki ýkja langt frá frönsku borg­inni yfir til flug­vall­arins í Genf en þangað fljúga þotur Icelandair á sumrin. Bordeaux eða Nice væru þá jafnvel fýsi­legri kostir fyrir Icelandair ef félagið sér tæki­færi í að hasla sér völl í fleiri borgum Frakk­lands en höfuð­borg­inni.

Spánn

Þotur Icelandair fljúga mest til Spánar fyrir íslenskar ferða­skrif­stofur og því ekki hægt að bóka far á heima­síðu flug­fé­lagsins sjálfs til Alicante eða Kana­ríeyja. Á sama tíma hefur Norwegian bætt veru­lega í áætl­un­ar­flug milli Íslands og Spánar. Meðal annars frá Alicante og hefur norska félagið ekki litið á þá flug­leið sem sérstaka þjón­ustu við sólþyrsta Íslend­inga. „Alicante hérað er fimmta fjöl­menn­asta svæði Spánar með 1,8 millj­ónir íbúa og auk þess búa 2,7 millj­ónir manna í innan við klukku­tíma akst­urs­fjar­lægð frá flug­velli borg­ar­innar. Það er því góður grund­völlur fyrir því að auka umferð frá Spáni til Íslands,” sagði talskona Norwegian til að mynda í viðtali við Túrista skömmu fyrir jómfrú­ar­ferðina vorið 2017. Það verður þó að teljast líklegra Icelandair tilkynni um endur­komu sína til Barcelona áður en áætl­un­ar­flug til Alicante eða annarra spænskra borga hefst.

Ítalía

Hingað til hefur flug Icelandair til Evrópu að lang mestu takmarkast við fjög­urra tíma flug­lengd svo þoturnar nýtist líka í flug til Norður-Ameríku innan sólar­hringsins. Þar með er Ítal­íu­skaginn eigin­lega utan seil­ingar. Með komu MAX þotanna þá sá þáver­andi forstjóri Icelandair tæki­færi í flugi lengra út í Evrópu. Ef þess háttar útrás er enn þá á teikni­borðinu þá gæti Icelandair spreytt sig á flugi til fleiri ítalskra borga en Mílanó. Sú stað­reynd að Vueling, WOW og Norwegian hættu öll áætl­un­ar­flugi milli Íslands og Rómar gæti dregið kjarkinn úr forsvars­fólki Icelandair þegar kemur að flugi til höfuð­borg­ar­innar. Í staðinn gætu þau horft til áfanga­staða norðar í landinu, til dæmis Bologna, Feneyja eða Pisa.

Portúgal

Frakkar, Spán­verjar og Ítalir eru á list­anum yfir þær tíu þjóðir sem eru fjöl­menn­astar í hópi ferða­manna hér á landi yfir sumar­mán­uðina. Portúgalir eru ekki taldir sérstak­lega á Kefla­vík­ur­flug­velli en þeir keyptu þó tvöfalt fleiri hótel­nætur hér á landi í sumar en á sama tíma í fyrra. Það er aftur á móti ekkert áætl­un­ar­flug starf­rækt milli Íslands og Portúgal en með því að bæta úr því gæti Icelandair slegið tvær flugur í einu höggi. Í fyrsta lagi að gera Íslend­ingum og Portú­gölum auðveldara að ferðast á milli land­anna tveggja og í öðru lagi setja ennþá meiri þrýsting á áætl­un­ar­flug TAP, stærsta flug­fé­lags Portúgal, til Norður-Ameríku. Nú þegar er Icelandair nefni­lega óbeint í samkeppni við TAP í flugi til Suður- og Norður-Ameríku í gegnum eign­ar­hald sitt á Capo Verde flug­fé­laginu. Það félag gerir út á tengiflug frá Lissabon til Ameríku með milli­lend­ingu á Græn­höfða­eyjum. Með komu Icelandair til Portúgal fengju farþegar á leið milli Norður-Ameríku og Lissabon nýjan valkost.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista