Eitt ár frá kaupum Icelandair á WOW air

Kaupum Icelandair á helsta keppinautnum var vel tekið af fjárfestum á þessum degi fyrir einu ári síðan.

saeti icelandair wow
Myndir: Icelandair og WOW air

Árla dags þann 5. nóvember í fyrra sendir Icelandair Group frá sér tilkynningu þar sem greint var frá því félagið hefði gert kaupsamning um kaup á öllu hlutafé í flugfélaginu WOW air. Kaupin voru þó gerð með fyrirvara um samþykki hluthafa og Samkeppniseftirlitsins og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar.

Skúli Mogensen, eini eigandi WOW air, átti að fá allt að 5,4 prósent hlutafjár Icelandair Group eftir viðskiptin. Hlutfallið gat þó lækkað ef staða WOW myndi reynast veikar en útlit var fyrir.

Á þessum tímapunkti voru rétt um sex vikur liðnar frá því að skuldabréfaútboði WOW air lauk. Löngu síðar kom í ljós að þar safnaðist ekki eins mikið nýtt fjármagn og leit út fyrir í fyrstu og lagði það meðal annars grunninn að viðræðum Icelandair og WOW air helgina áður en tilkynningin var send út mánudagsmorguninn 5.nóvember. Gengi hlutabréfa í Icelandair hækkaði sama dag um nærri fjörutíu af hundraði en hefur síðastliðið ár ekki náð sömu hæðum.

Kaupum Icelandair á WOW air var svo rift 29. nóvember og þá tóku við rúmlega þriggja mánaða samningalota Skúla og Indigo Partners sem engu skilaði að lokum.