Fengu 34 milljarða til flugreksturs í gærkvöld

Fjárfestar og lánveitendur svöruðu kalli stjórnenda Norwegian eftir auknu fé til rekstursins. Félagið hefur ekki ennþá fylgt fordæmi Icelandair og sótt bætur til Boeing vegna MAX þotanna.

Mynd: Norwegian

Þrátt fyrir metafkomu, sölu á flugvélum og samkomulags um framlengingu skuldabréfa þá óskaði stjórn Norwegian seinnipartinn í gær eftir auknu hlutafé upp á 1,1 milljarða norskra króna. Það samsvarar um 15 milljörðum íslenskra króna. Til viðbótar voru gefin út skuldabréf sem áttu að styrkja félagið um 19 milljarða króna (1,4 milljarðar norskra). Það er skemmst frá því að segja að á nokkrum klukkutímum safnaðist allt þetta fé og strax í gærkvöld var tilkynnt um að sölu á hlutafé og skuldabréfum væri lokið.

Það var þó nokkuð dýru verði keypt því samkvæmt frétt Dagens Næringsliv nú í morgun þá eru vextirnir á skuldabréfunum nefnilega um 6,4 prósent. Hlutabréfin voru seld á undirverði eða 13 prósentum undir gengi félagsins við lokun kauphallarinnar í Ósló í gær. Af þeim sökum hefur gengi Norwegian lækkað hratt í morgun eða um nærri tíund.

Í tilkynningu frá Norwegian er haft eftir Geir Karlsen, starfandi forstjóra og fjármálastjóra Norwegian, að megin ástæðunnar fyrir fjárþörf flugfélagsins séu tvær. Í fyrsta lagi verri skilmálar hjá kreditkortafyrirtækjum sem nú halda eftir hærra hlutfalli af ónýttum flugmiðum. Í öðru lagi þá hefur kyrrsetning á Boeing MAX þotunum og vandræði á Boeing Dreamliner verið félaginu dýrkeypt. Þannig hefur félagið þurft að leigja flugvélar og áhafnir til að fylla skarð þessara þota í ár og nemur leigukostnaðurinn núna um 20 milljörðum króna.

Öfugt við Icelandair þá hefur Norwegian, þrátt fyrir veika stöðu, ekki ennþá ekki sótt bætur til Boeing vegna kyrrsetningar á MAX þotum en félagið var komið með fimmtán þannig þotur í rekstur.

Í dag flýgur Norwegian til Íslands frá Tenerife, Las Palmas, Alicante, Barcelona, Madríd og Ósló. Flugið til spænsku höfuðborgarinnar leggast af eftir áramót.