Ferðaþjónustan fyrir norðan verðlaunuð

Sjóböðin, Ektafiskur, Hvalaskoðunin á Hauganesi og Evelyn Ýr Kuhne fengu viðurkenningu fyrir vel unnin störf norðan heiða.

Frá GeoSea sjóböðunum, sprota ársins í ferðaþjónustunni á Norðurlandi. Mynd: GeoSea

Venju samkvæmt veitti Markaðsstofa Norðurlands þrjár viðurkenningar á Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi, sem var haldin í Hörgarársveit og Dalvíkurbyggð að þessu sinni. Viðurkenningarnar eru þrjár; sproti ársins, fyrirtæki ársins og störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi.

Að þessu sinni var GeoSea á Húsavík valið sproti ársins, fyrirtækin Ektafiskur og Hvalaskoðun á Hauganesi fengu sameiginlega viðurkenningu fyrir fyrirtæki ársins og að lokum var það Skagfirðingurinn Evelyn Ýr Kuhne sem hlaut viðurkenningu fyrir störf í þágu ferðaþjónustu samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands.

Þar segir jafnramt um Sprota ársins að sjaldgæft sé að sjá nýja afþreyingu slá jafn rækilega í gegn og GeoSea hafi gert. Og til marks um það þá komust böðin í sumar á lista fyrir 100 bestu áfangastaði heims hjá tímaritinu Time.

Um fyrirtæki ársins, sem voru tvö að þessu sinni, segir að Haugnesingar hafa verið öflugir í ferðaþjónustu síðustu ár og á þessu ári hefur verið gefið enn frekar í, með tilkomu heitu pottanna í flæðarmálinu og nýrrar aðstöðu við tjaldsvæðið. „Í fyrra fagnaði Hvalaskoðunin 25 ára starfsafmæli, en þetta elsta hvalaskoðunarfyrirtæki landsins gerir út tvo eikarbáta og býður farþegum sínum að kolefnisjafna ferðirnar sínar. Ektafiskur á sér svo enn lengri sögu, en saltfiskverkun þessa fjölskyldufyrirtækis má rekja aftur í fimm ættliði. Ferðamenn geta smakkað á saltfisknum á Baccalá Bar, sem var opnaður fyrir fáeinum árum og hefur notið vinsælda síðan.“

Viðurkenninguna fyrir störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi fær sáa einstaklingur sem hefur haft góð áhrif á ferðaþjónustu á Norðurlandi í heild sinni og hefur starfað beint eða óbeint fyrir ferðaþjónustu á svæðinu. Í ár var það Skagfirðingurinn Evelyn Ýr Kuhne sem hlýtur þessa viðurkenningu.

„Á Lýtingsstöðum hefur Evelyn, ásamt fjölskyldu sinni, byggt fyrirtækið sitt upp í 20 ár og stöðugt unnið að því að bæta þjónustuna við ferðamenn. Hestaferðir og hestasýningar eru hennar aðalsmerki en einnig er boðið upp á gistingu og skoðunarferðir með leiðsögn um torfhesthúsið sem byggt var upp fyrir örfáum árum.“