Gera hlé á Parísarfluginu

Eftir áramót verður Icelandair eitt um áætlunarflugið milli Íslands og Frakklands.

Mynd: John Towner / Unsplash

Þotur Transavia hafa um árabil flogið til Íslands frá Orly flugvelli við París en aðeins yfir sumarmánuðina. Við fall WOW air þá lengdi Transavia hins vegar tímabilið og nú í haust hafa verið á boðstólum tvær brottfarir í viku og framhald verður á fram til 4. janúar næstkomandi.

Þá verður gert hlé á Íslandsflugi Transavia frá París fram til 19. maí þegar þráðurinn verður tekinn upp á nýjan leik með fimm ferðum í viku. Að öllu óbreyttu situr Icelandair því eitt að áætlunarferðum milli Íslands og Frakklands í byrjun næsta árs og fram á vorið.

Þó hlé verði gert á ferðum Transavia til Íslands frá Orly þá heldur félagið áfram að fljúga hingað frá Amsterdam í allan vetur og í febrúar bætast meira að segja við ferðir frá hollensku borginni til Akureyrar.

Transavia er dótturfélag KLM og Air France en þau tvö flugfélög hafa ekki ennþá bætt Íslandi við leiðakerfi sín.