Gerir ekki athuga­semd við samein­ingu keppi­nauta

Ferðaþjónustan er gríðarlega skemmtileg grein með miklum áskorunum segir framkvæmdastjóri Kynnisferða. Hann segist telja að flestir í greininni séu að skoða aukin umsvif og ný tækifæri um þessar mundir.

Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða. Myndir: Kynnisferðir

Kynn­is­ferðir eiga sér fimmtíu ára sögu og hafa lengi verið eitt stærsta ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tæki landsins. Síðustu misseri hefur félagið stokkað upp hluta af rekstr­inum og á sama tíma stefna tveir af helstu keppi­nautum félagsins á samein­ingu. Túristi spurði Björn Ragn­arsson, fram­kvæmda­stjóra Kynn­is­ferða, um þessi mál, skuld­irnar, greiðslur til Isavia og fleira.

Þú tókst við sem fram­kvæmda­stjóri Kynn­is­ferða fyrir rúmum tveimur árum. Áður varstu fjár­mála­stjóri fyrir­tæk­isins og þú hefur líka reynslu frá Avis og Bláa lóninu. Ertu kominn til að vera í ferða­þjón­ustu?
Ég hóf störf hjá Kynn­is­ferðum í mars 2017 sem rekstr­ar­stjóri hópbif­reiða og tók svo við sem fram­kvæmda­stjóri í sept­ember 2017. Ég er búinn að vera tölu­vert í ferða­þjón­ustu eins og þú nefnir. Ferða­þjón­ustan er gríð­ar­lega skemmtileg grein með miklum áskor­unum og svo er alveg frábært að vinna við að selja þetta frábæra land sem við búum í. Ég vona því að ég verði áfram í ferða­þjón­ust­unni að vinna með því frábæra starfs­fólki sem vinnur hjá Kynn­is­ferðum.

Þið hafið stokkað upp bíla­flota Kynn­is­ferða upp að undan­förnu. Hver er ávinn­ing­urinn af því?
Við höfum fækkað bílum samhliða því að endur­nýja. Nýrri bílar eru með meira rekstr­arör­yggi, hagkvæmari í rekstri og með meiri örygg­is­búnaði. Við höfum því náð að fækka vara­bílum og fáum því betri nýtingu. Einnig höfum við gert breyt­ingar á „pick-up drop-off“ þjón­ust­unni og notum núna stræt­is­vagna í þær ferðir. Það hefur bætt þjón­ustuna og rúturnar losna þá fyrr úr verk­efnum vegna þess að áður voru þær nýttar í að keyra farþega úr dags­ferðum á viðkom­andi gisti­staði.

Á sama tíma hafið þið eflt mark­aðs­setn­ingu fyrir­tæk­isins og m.a. ráðið inn fólk frá WOW air. Eruð þið farin að sjá árangur af þessu?
Í sumar tókum við í notkun nýja heima­síðu sem gefur okkur miklu meiri sveigj­an­leika í þjón­ustu­fram­boði. Innleiðing á nýrri heima­síðu tekur tíma og höfum við aukið mikið vöru­framboð frá öðrum ferða­þjón­ustu­að­ilum og hefur sú sala tvöfaldast. Við sjáum þegar að viðskipta­vinir eru að verja meiri tíma á síðunni en áður og stærra hlut­fall endar með kaupum.

Kynn­is­ferðir reka Flugrútuna og í kjölfar útboðs á aðstöð­unni við Leifs­stöð þá borgið þið Isavia 41,2% af hverjum rútumiða sem þið seljið frá Kefla­vík­ur­flug­velli. Myndir þú endur­nýja samn­inginn til lengri tíma ef það stæði til boða í dag?
Við getum sagt samn­ingi okkar upp við Isavia og þannig höfum við útgöngu­leið. Ef útboð væri núna í gangi myndum við líklega bjóða lægri prósentu.

Það kom fram í úttekt Morg­un­blaðsins í vor að Kynn­is­ferðir skuldaði þá 8 millj­arða og eignir fyrir­tæk­isins næmu 9,2 millj­örðum. Hver er skýr­ingin á þessum skulda­bagga og náið þið að dafna með hann á bakinu?
Félagið er vissu­lega skuld­sett en við erum í rekstri sem er mjög fjár­frekur í fasta­fjár­munum. Við erum með bíla­leigu, stórt verk­efni með Strætó, rútur og fast­eignir. EBITDA samstæð­unnar á síðasta ári var kr. 1,5 millj­arðar þrátt fyrir erfitt rekstr­ar­um­hverfi.

Tveir af ykkar helstu keppi­nautum, Reykjavik Sight­seeing og Grayline, bíða eftir samþykki Samkeppn­is­yf­ir­valda fyrir samein­ing­ar­við­ræðum. Þú hefur vænt­an­lega verið beðinn um umsögn um þau áform. Hvert var þitt svar?
Við gerum ekki athuga­semd við samein­ingu Reykjavik Sight­seeing og Grayline. Það er eðli­legt miðað við ástandið í ferða­þjón­ustu og slaka afkomu að eitt­hvað þurfti að gera.

Framboð á ferðum um Gullna hringinn og vinsæl­ustu staðina á Suður­landi er mikið. Horfið þið í auknum mæli til annarra áfanga­staða þar sem færri eru á ferð­inni í dag?
Nei, við aukið frekar við okkur í annarri þjón­ustu eins og sérhópum og hring­ferðum í samstarfi við erlendar ferða­skrif­stofur.

Er sókn­ar­færi fyrir Kynn­is­ferðir að auka umsvifin á fleiri sviðum ferða­þjón­ustu?
Ég held að flestir í ferða­þjón­ustu séu að skoða aukin umsvif og ný tæki­færi.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista