Gerir ekki athugasemd við sameiningu keppinauta

Ferðaþjónustan er gríðarlega skemmtileg grein með miklum áskorunum segir framkvæmdastjóri Kynnisferða. Hann segist telja að flestir í greininni séu að skoða aukin umsvif og ný tækifæri um þessar mundir.

Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða. Myndir: Kynnisferðir

Kynnisferðir eiga sér fimmtíu ára sögu og hafa lengi verið eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins. Síðustu misseri hefur félagið stokkað upp hluta af rekstrinum og á sama tíma stefna tveir af helstu keppinautum félagsins á sameiningu. Túristi spurði Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóra Kynnisferða, um þessi mál, skuldirnar, greiðslur til Isavia og fleira.

Þú tókst við sem framkvæmdastjóri Kynnisferða fyrir rúmum tveimur árum. Áður varstu fjármálastjóri fyrirtækisins og þú hefur líka reynslu frá Avis og Bláa lóninu. Ertu kominn til að vera í ferðaþjónustu?
Ég hóf störf hjá Kynnisferðum í mars 2017 sem rekstrarstjóri hópbifreiða og tók svo við sem framkvæmdastjóri í september 2017. Ég er búinn að vera töluvert í ferðaþjónustu eins og þú nefnir. Ferðaþjónustan er gríðarlega skemmtileg grein með miklum áskorunum og svo er alveg frábært að vinna við að selja þetta frábæra land sem við búum í. Ég vona því að ég verði áfram í ferðaþjónustunni að vinna með því frábæra starfsfólki sem vinnur hjá Kynnisferðum.

Þið hafið stokkað upp bílaflota Kynnisferða upp að undanförnu. Hver er ávinningurinn af því?
Við höfum fækkað bílum samhliða því að endurnýja. Nýrri bílar eru með meira rekstraröryggi, hagkvæmari í rekstri og með meiri öryggisbúnaði. Við höfum því náð að fækka varabílum og fáum því betri nýtingu. Einnig höfum við gert breytingar á „pick-up drop-off“ þjónustunni og notum núna strætisvagna í þær ferðir. Það hefur bætt þjónustuna og rúturnar losna þá fyrr úr verkefnum vegna þess að áður voru þær nýttar í að keyra farþega úr dagsferðum á viðkomandi gististaði.

Á sama tíma hafið þið eflt markaðssetningu fyrirtækisins og m.a. ráðið inn fólk frá WOW air. Eruð þið farin að sjá árangur af þessu?
Í sumar tókum við í notkun nýja heimasíðu sem gefur okkur miklu meiri sveigjanleika í þjónustuframboði. Innleiðing á nýrri heimasíðu tekur tíma og höfum við aukið mikið vöruframboð frá öðrum ferðaþjónustuaðilum og hefur sú sala tvöfaldast. Við sjáum þegar að viðskiptavinir eru að verja meiri tíma á síðunni en áður og stærra hlutfall endar með kaupum.

Kynnisferðir reka Flugrútuna og í kjölfar útboðs á aðstöðunni við Leifsstöð þá borgið þið Isavia 41,2% af hverjum rútumiða sem þið seljið frá Keflavíkurflugvelli. Myndir þú endurnýja samninginn til lengri tíma ef það stæði til boða í dag?
Við getum sagt samningi okkar upp við Isavia og þannig höfum við útgönguleið. Ef útboð væri núna í gangi myndum við líklega bjóða lægri prósentu.

Það kom fram í úttekt Morgunblaðsins í vor að Kynnisferðir skuldaði þá 8 milljarða og eignir fyrirtækisins næmu 9,2 milljörðum. Hver er skýringin á þessum skuldabagga og náið þið að dafna með hann á bakinu?
Félagið er vissulega skuldsett en við erum í rekstri sem er mjög fjárfrekur í fastafjármunum. Við erum með bílaleigu, stórt verkefni með Strætó, rútur og fasteignir. EBITDA samstæðunnar á síðasta ári var kr. 1,5 milljarðar þrátt fyrir erfitt rekstrarumhverfi.

Tveir af ykkar helstu keppinautum, Reykjavik Sightseeing og Grayline, bíða eftir samþykki Samkeppnisyfirvalda fyrir sameiningarviðræðum. Þú hefur væntanlega verið beðinn um umsögn um þau áform. Hvert var þitt svar?
Við gerum ekki athugasemd við sameiningu Reykjavik Sightseeing og Grayline. Það er eðlilegt miðað við ástandið í ferðaþjónustu og slaka afkomu að eitthvað þurfti að gera.

Framboð á ferðum um Gullna hringinn og vinsælustu staðina á Suðurlandi er mikið. Horfið þið í auknum mæli til annarra áfangastaða þar sem færri eru á ferðinni í dag?
Nei, við aukið frekar við okkur í annarri þjónustu eins og sérhópum og hringferðum í samstarfi við erlendar ferðaskrifstofur.

Er sóknarfæri fyrir Kynnisferðir að auka umsvifin á fleiri sviðum ferðaþjónustu?
Ég held að flestir í ferðaþjónustu séu að skoða aukin umsvif og ný tækifæri.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista