Hagstæðara að fljúga til Grænlands frá Reykjavík

Flugið innanlands og til Grænlands helst í hendur hjá Air Iceland Connect þar sem sömu flugvélar og áhafnir eru nýttar. Þar með er óhagræði í því fyrir félagið að fljúga til Grænlands frá Keflavíkurflugvelli. Farþegum á leið til Grænlands frá Íslandi fækkað aðeins í fyrra.

Mynd: Air Iceland Connect

Air Iceland Connect hyggst auka umsvif sín í Grænlandsflugi þegar nýir flugvellir verða teknir í notkun á Grænlandi eftir fjögur til fimm ár. Þetta hefur grænlenska blaðið Sermitsiaq eftir Árna Gunnarssyni, framkvæmdastjóra flugfélagsins. Rúv greindi fyrst frá.

Reykjavíkurflugvöllur hefur verið helsta samgöngumiðstöðin fyrir áætlunarferðir Air Iceland Connect til Grænlands. Þar með geta farþegar sem koma hingað frá öðrum löndum, til dæmis með Icelandair, ekki flogið beint frá Keflavíkurflugvelli áfram til Grænlands með Air Iceland Connect. Aftur á móti býður Air Greenland upp á beint flug frá Keflavíkurflugvelli til Nuuk, höfuðstaðs Grænlands.

„Við höfum haldið Grænlandsfluginu okkar frá Reykjavík í gegnum tíðina af tvennum ástæðum aðallega. Annars vegar er það hagkvæmara fyrir okkur því þar erum við með okkar aðalstöðvar og notum sömu flugvélar og mannskap í bæði innanlandsflug og til Grænlands. Það er því töluvert óhagræði í því fyrir okkur að fljúga frá Keflavíkurflugvelli til Grænlands í stað Reykjavíkur. Hinsvegar eru flestir okkar farþegar að tengja saman dvöl á Íslandi og á Grænlandi og gista þá í eða nálægt Reykjavík. Það er því hentugra fyrir þá að fara þaðan en frá Keflavíkurflugvelli. Þessi ástæða er þó ekki eins mikilvæg eins og sú fyrri,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, aðspurður um af hverju flogið er til Grænlands er út frá Reykjavík en ekki Keflavíkurflugvelli.

„Hvernig framtíðin í þessu lítur út er óráðið en þetta er ástæðan fyrir því að þetta er svona eins og það er í dag,“ bætir Árni við.

Samkvæmt nýrri samantekt ferðamálayfirvalda á Grænlandi þá flutti Air Iceland Connect aðeins færri farþega til landsins í fyrra en árin á undan eins og sjá má hér fyrir neðan. Í skýrslunni eru leiddar líkur að því að niðursveiflan skrifist á hækkandi fargjöld og jafnvel minnkandi eftirspurn eftir ferðalögum til Íslands.Ferðafólki á Grænlandi fjölgaði þó þrjá af hundraði í fyrra sem er nokkru minni vöxtur er árin á undan þegar aðeins er horft til þeirra sem koma til landsins með flugi. Farþegar skemmtiferðaskipa eru þá ekki meðtaldir.

 

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista