Hagstæðara að fljúga til Græn­lands frá Reykjavík

Flugið innanlands og til Grænlands helst í hendur hjá Air Iceland Connect þar sem sömu flugvélar og áhafnir eru nýttar. Þar með er óhagræði í því fyrir félagið að fljúga til Grænlands frá Keflavíkurflugvelli. Farþegum á leið til Grænlands frá Íslandi fækkað aðeins í fyrra.

Mynd: Air Iceland Connect

Air Iceland Connect hyggst auka umsvif sín í Græn­lands­flugi þegar nýir flug­vellir verða teknir í notkun á Græn­landi eftir fjögur til fimm ár. Þetta hefur græn­lenska blaðið Sermitsiaq eftir Árna Gunn­ars­syni, fram­kvæmda­stjóra flug­fé­lagsins. Rúv greindi fyrst frá.

Reykja­vík­ur­flug­völlur hefur verið helsta samgöngu­mið­stöðin fyrir áætl­un­ar­ferðir Air Iceland Connect til Græn­lands. Þar með geta farþegar sem koma hingað frá öðrum löndum, til dæmis með Icelandair, ekki flogið beint frá Kefla­vík­ur­flug­velli áfram til Græn­lands með Air Iceland Connect. Aftur á móti býður Air Green­land upp á beint flug frá Kefla­vík­ur­flug­velli til Nuuk, höfuð­staðs Græn­lands.

„Við höfum haldið Græn­lands­fluginu okkar frá Reykjavík í gegnum tíðina af tvennum ástæðum aðal­lega. Annars vegar er það hagkvæmara fyrir okkur því þar erum við með okkar aðal­stöðvar og notum sömu flug­vélar og mann­skap í bæði innan­lands­flug og til Græn­lands. Það er því tölu­vert óhag­ræði í því fyrir okkur að fljúga frá Kefla­vík­ur­flug­velli til Græn­lands í stað Reykja­víkur. Hins­vegar eru flestir okkar farþegar að tengja saman dvöl á Íslandi og á Græn­landi og gista þá í eða nálægt Reykjavík. Það er því hent­ugra fyrir þá að fara þaðan en frá Kefla­vík­ur­flug­velli. Þessi ástæða er þó ekki eins mikilvæg eins og sú fyrri,” segir Árni Gunn­arsson, fram­kvæmda­stjóri Air Iceland Connect, aðspurður um af hverju flogið er til Græn­lands er út frá Reykjavík en ekki Kefla­vík­ur­flug­velli.

„Hvernig fram­tíðin í þessu lítur út er óráðið en þetta er ástæðan fyrir því að þetta er svona eins og það er í dag,” bætir Árni við.

Samkvæmt nýrri saman­tekt ferða­mála­yf­ir­valda á Græn­landi þá flutti Air Iceland Connect aðeins færri farþega til landsins í fyrra en árin á undan eins og sjá má hér fyrir neðan. Í skýrsl­unni eru leiddar líkur að því að niður­sveiflan skrifist á hækk­andi fargjöld og jafnvel minnk­andi eftir­spurn eftir ferða­lögum til Íslands.Ferðafólki á Græn­landi fjölgaði þó þrjá af hundraði í fyrra sem er nokkru minni vöxtur er árin á undan þegar aðeins er horft til þeirra sem koma til landsins með flugi. Farþegar skemmti­ferða­skipa eru þá ekki meðtaldir.

 

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista