Helm­ingi færri ferða­menn en reiknað var með

Þær tölur sem Morgunblaðið birti í dag af mögulegum umsvifum Play ganga ekki upp. Ekki var þó ætlunin að villa um fyrir fólki.

Tölvuteikning frá Play

Áform flug­fé­lagsins Play gera ráð fyrir að farþegar þess verði samtals 4,3 millj­ónir á næstu þremur árum. Frá þessu er sagt í Morg­un­blaðinu í dag undir fyrir­sögn­inni Hundraða millj­arða hags­munir undir. Þar kemur jafn­framt fram að á þessu þriggja ára tíma­bili ætti Play að flytja um 1,7 millj­ónir ferða­manna til Íslands.

Þessar tvær stærðir ganga þó ekki upp í þessu samhengi nema þrír af hverjum fjórum farþegum Play verði erlendir ferða­menn. Ástæðan er sú að flug­far­þegar eru ávallt taldir á hverjum flug­legg, bæði þegar þeir fljúga til og frá landinu. Ferða­mað­urinn er aftur á móti aðeins talinn einu sinni við landa­mærin.

Af þeim sökum beindi Túristi þeirri spurn­ingu til Boga Guðmunds­sonar, eins af fram­kvæmda­stjórum Play og viðmæl­anda Morg­un­blaðsins í dag, hvort ekki væri réttara að tala um að Play gæti flutt 850 þúsund ferða­menn til landsins en ekki 1,7 millj­ónir. Í svari sínu segir Bogi að það sé rétt athugað og ferða­manna­fjöldinn hjá Play verði þá nær 900 þúsundum. Bogi bætir því við að ekki hafi verið ætlunin að villa um fyrir fólki.

Líkt og áður hefur komið fram þá efndi Play til fjár­festa­fundar með forsvars­fólki íslenskra ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tækja í gær. Í fund­ar­boði var bent á að áætlanir flug­fé­lagsins gerðu ráð fyrir að félagið myndi ferja 1,7 millj­ónir ferða­manna til Íslands á næstu þremur árum. Nú liggur hins vegar fyrir að ferða­menn­irnir verða um helm­ingi færri.

Á það ber líka að líta að Play ætlar að hefja flug á flug­leiðum sem nú þegar eru í boði í flugi til og frá Kefla­vík­ur­flug­velli. Félagið mun því vænt­an­lega ekki verða hrein viðbót við það sem fyrir er á mark­aðnum heldur taka hluta af þeim farþegum sem annars hefðu valið Icelandair, Delta, SAS, Norwegian eða Transavia.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista