Hugsað sem fyrsta skrefið í kolefnisjöfnun

Viðskiptavinum bílaleigunnar Avis býðst nú að kolefnisjafna aksturinn. Þessi þjónusta nær einnig til viðskiptavina Budget og Payless á Íslandi.

Axel Gómez, framkvæmdastjóri AVIS og Haukur Björnsson, einn eigenda TreememberMe. MYNDIR: AVIS og Matteo Paganelli / Unsplash

Kolefnisfótspor ferðalaga og sérstaklega flugferða er nú sífellt meira til umræðu. Bílaleigan Avis er eitt þeirra fyrirtækja sem nú ætla að bjóða viðskiptavinum sínum að kolefnisjafna ferðalag sitt. Axel Gómez, framkvæmdastjóri hjá Avis, segir að losunin verði reiknuð út í lok leigutíma og þá út frá fjölda ekinna kílómetra og stærð ökutækis. „Við gerum okkur grein fyrir því að slík nálgun er ekki 100 prósent og þar spila margir óvissu þættir inn í eins og fjöldi farþega í bíl, farangur, langkeyrsla, aldur, tegund og fleira.“

Verkefnið er unnið í samstarfi við fyrirtækið TreememberMe sem bindur kolefnislosunina með gróðursetningu trjáa hér á landi. Viðskiptavinir Avis hafa svo fullt val um hversu mörg tré þeir kaupa óháð útreikningum bílaleigunnar. Skógræktin mun sjá um gróðursetningu og notast er við lausn sem þróuð var af fyrirtækinu TreememberMe en hún gerir viðskiptavinum kleift að skoða ýmsar upplýsingar um trén á vefnum, svo sem staðsetningu, trjátegundir og kolefnisbindingu.

„Okkar þjónusta felst fyrst of fremst í því að upplýsa og bjóða viðskiptavinum okkar þann möguleika að binda sitt kolefnisspor. Þetta er hugsað sem okkar fyrsta skref en enginn ákvörðun um mótframlag hefur ennþá verið tekið og til að byrja með verða viðskiptin eingöngu á milli okkar viðskiptavina og TreememberME,“ svarar Axel aðspurður um hvort bílaleigan sjálf leggi til framlag á móts við kúnnan. Hann bendir á að Avis hafi ákveðið að fara sömu leið í þessu og Icelandair sem einnig býður viðskiptavinum sínum upp á kolefnisjöfnun með þessum hætti.

Í tilkynningu segir að Avis hafi undanfarin misseri lagt stóraukna áherslu á umhverfisvænar lausnir fyrir viðskiptavini og einnig leiðir til að minnka umhverfisáhrif af rekstri. Hið nýja kolefnislosunarverkefni verður hleypt af stokkunum í byrjun næsta mánaðar.

TENGDAR GREINAR: ÓLÍKU SAMAN AÐ (KOLEFNIS)JAFNA