Icelandair reiknar með aðeins færri farþegum á næsta ári

Sætisframboð hjá Icelandair verður aukið í Evrópuflugi en dregst saman í ferðum vestur um haf.

Mynd: Icelandair

Sumaráætlun Icelandair liggur nú að mestu fyrir og gert er ráð fyrir flugi til fjörutíu áfanga­staða. Í tilkynn­ingu segir að þar af sé einn nýr áfanga­staður í Evrópu. Ekki kemur fram hvaða áfanga­staður það er en telja verður líklega að forsvars­fólk Icelandair horfi til Barcelona eða jafnvel Rómar­borgar. Sú fyrr­nefnda var hluti af leiða­kerfi Icelandair og framboð á flugi þangað hefur dregist saman yfir sumar­mán­uðina eftir fall WOW. Frá Rómar­borg hefur Norwegian stór­aukið flug til Banda­ríkj­anna og sú útrás hefur ósenni­lega farið framhjá forsvars­fólki Icelandair.

Samtals verða 5,1 milljón sæta í boði hjá Icelandair allt næsta ári og gert er ráð fyrir 4,2 millj­ónum farþega. Það er 150 þúsund fleiri farþegar en árið 2018 en líklega aðeins undir farþega­fjöld­anum í ár því fyrstu tíu mánuði ársins flugu 3,9 millj­ónir farþega með Icelandair og gera má ráð fyrir að um 550 til 650 þúsund farþegar bætist við í nóvember og desember.

Í tilkynn­ingu segir að á næsta ári verði áfram megin­ár­hersla lögð á farþega á leið til Íslands en vægi þeirra hefur aukist veru­lega í ár. Þannig hefur sá hópur farþega stækkað um fjórðung það sem af er ári.

Áætl­un­ar­flug til Evrópu verður aukið um tvo af hundraði og meðal annars með aukinni tíðni ferða til Kaup­manna­hafnar, Hels­inki, Berlín, Zurich, Madríd and Mílanó. Aftur á  móti verður dregið úr ferðum til Parísar, Frankfurt og Hamburg.

Sætis­framboð til Norður-Ameríku minnkar um 11 prósent frá árínu í ár og megin skýr­ingin á því er sú að félagið leggur niður flug til San Francisco, Kansas City og Tampa eins og áður hefur komið fram. Í heildina dregst fram­boðið saman um nærri fimm af hundraði.

„Megin­áhersla okkar á næsta ári verður að bæta afkomu af leiða­kerfi félagsins. Það verður forgangs­verk­efni hjá okkur að tryggja framboð á flugi til og frá Íslandi til að styðja við fjölgun ferða­manna til landsins. Þá munum við einbeita okkur að lykil­mörk­uðum okkar þar sem eftir­spurn er mikil og staða félagsins sterk en draga úr tíðni á óarð­bærum flug­leiðum á móti. Allar áætlanir okkar miða að því að styrkja rekstr­ar­grund­völl félagsins til fram­tíðar,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilkynn­ingu.