Icelandair reiknar með aðeins færri farþegum á næsta ári

Sætisframboð hjá Icelandair verður aukið í Evrópuflugi en dregst saman í ferðum vestur um haf.

Mynd: Icelandair

Sumaráætlun Icelandair liggur nú að mestu fyrir og gert er ráð fyrir flugi til fjörutíu áfangastaða. Í tilkynningu segir að þar af sé einn nýr áfangastaður í Evrópu. Ekki kemur fram hvaða áfangastaður það er en telja verður líklega að forsvarsfólk Icelandair horfi til Barcelona eða jafnvel Rómarborgar. Sú fyrrnefnda var hluti af leiðakerfi Icelandair og framboð á flugi þangað hefur dregist saman yfir sumarmánuðina eftir fall WOW. Frá Rómarborg hefur Norwegian stóraukið flug til Bandaríkjanna og sú útrás hefur ósennilega farið framhjá forsvarsfólki Icelandair.

Samtals verða 5,1 milljón sæta í boði hjá Icelandair allt næsta ári og gert er ráð fyrir 4,2 milljónum farþega. Það er 150 þúsund fleiri farþegar en árið 2018 en líklega aðeins undir farþegafjöldanum í ár því fyrstu tíu mánuði ársins flugu 3,9 milljónir farþega með Icelandair og gera má ráð fyrir að um 550 til 650 þúsund farþegar bætist við í nóvember og desember.

Í tilkynningu segir að á næsta ári verði áfram meginárhersla lögð á farþega á leið til Íslands en vægi þeirra hefur aukist verulega í ár. Þannig hefur sá hópur farþega stækkað um fjórðung það sem af er ári.

Áætlunarflug til Evrópu verður aukið um tvo af hundraði og meðal annars með aukinni tíðni ferða til Kaupmannahafnar, Helsinki, Berlín, Zurich, Madríd and Mílanó. Aftur á  móti verður dregið úr ferðum til Parísar, Frankfurt og Hamburg.

Sætisframboð til Norður-Ameríku minnkar um 11 prósent frá árínu í ár og megin skýringin á því er sú að félagið leggur niður flug til San Francisco, Kansas City og Tampa eins og áður hefur komið fram. Í heildina dregst framboðið saman um nærri fimm af hundraði.

„Megináhersla okkar á næsta ári verður að bæta afkomu af leiðakerfi félagsins. Það verður forgangsverkefni hjá okkur að tryggja framboð á flugi til og frá Íslandi til að styðja við fjölgun ferðamanna til landsins. Þá munum við einbeita okkur að lykilmörkuðum okkar þar sem eftirspurn er mikil og staða félagsins sterk en draga úr tíðni á óarðbærum flugleiðum á móti. Allar áætlanir okkar miða að því að styrkja rekstrargrundvöll félagsins til framtíðar,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilkynningu.