Kallar eftir banni á viðskiptafarrými

Forstjóri ungverska lággjaldaflugfélagsins Wizz Air segir það ekki forsvaranlegt að fljúga fólki á sérstökum viðskiptafarrýmum þar sem mengunin af þess háttar er of mikil.

Hjá Wizz Air sitja allir í eins sætum en það er þó lengra bil á milli sumra sæta. Og fyrir þau borga farþegar aukalega. Mynd: Wizz Air

Farþegi sem flýgur frá Íslandi til New York losar um 1,4 tonn af gróðurhúsalofttegundum á ferðalaginu. Ef viðkomandi situr á Saga Comfort hjá Icelandair eða viðskiptafarrými Delta þá nemur losunin um 2,6 tonnum. Þetta sýna niðurstöður reiknivélar Myclimate.

Losunin er mun minni samkvæmt kolefnisreiknivél Icelandair því þar segir að farþegi á Saga farrými losi eitt tonn af gróðurhúsalofttegundum og sá á almennu farrými 700 kíló. En líkt og Túristi hefur áður fjallað um þá er ber flugfélögum og umhverfissamtökum ekki saman um hversu mikil losunin er af fluginu í raun og veru.

Allir virðast þó sammála um að farþegar í stóru sætunum fremst í flugvélunum menga mun meira en þeir sem sitja aftar. Og á fundi með fjárfestum í gær gerði Josef Varadi, forstjóri Wizz air, það að tillögu sinni að brátt yrðu allir látnir sitja í eins sætum.  „Það ætti að banna viðskiptafarrými. Kolefnisfótspor þessara farþega er tvöfalt stærra en þeirra sem ferðast á hefðbundnu farrými.“

Bætti Varadi því við að hann teldi þetta fyrirkomulag óskilvirkt og gamaldags og fluggeirinn væri sjálfur sekur um að viðhalda því. „Það er löngu kominn tími á að endurskoða þetta og við skorum á önnur flugfélög að beita sér fyrir því að taka fyrir og banna viðskiptafarrými í flugferðum sem eru styttri en fimm klukkutímar,“ sagði Varadi forstjóri sömuleiðis.

Wizz Air er eitt þeirra flugfélaga sem birtir mánaðarlega upplýsingar um hversu mikil losun gróðurhúsalofttegunda er á hvern farþega félagsins. Og í ljósi þess hve félagið flýgur nýlegum þotum og þéttsetnum þá er losun á hvern farþega þar á bæ væntanlega nokkru lægri en hjá flugfélögum með eldri þotur og lægri sætanýtingu en tíðkast hjá lággjaldaflugfélögunum.

Wizz air er umsvifamesta erlenda flugfélagið á Keflavíkurflugvelli. Í vetur flýgur félagið til að mynda héðan til 10 borga eins og hér má sjá.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista