Kínaflug með mislangri millilendingu

Farþegar sem nýta sér áætlunarflug Juneyao Airlines milli Íslands og Sjanghæ í Kína mega gera ráð fyrir að bíða í flugvélinni í að minnsta kosti þrjú korter í Helsinki.

Frá Sjanghæ í Kína. Mynd: Edward He on Unsplash

Í lok mars hefst áætlunarflug kínverska flugfélagsins Juneyao Airlines til Keflavíkurflugvallar. Flogið verður tvisvar í viku til Sjanghæ í Kína allt árið um kring líkt og kom fram í Fréttablaðinu. Þotur Juneyao Airlines fljúga þó ekki beint til Íslands frá Sjanghæ heldur stoppa þær í Helsinki á leiðinni. Í flugi til Kína frá Íslandi er gert ráð fyrir 45 mínútna stoppi í finnsku höfuðborginni en á bakaleiðinni verður biðin einum klukkutíma lengri.

Upplýsingafulltrúi félagsins, segir í samtali við Túrista, að farþegar muni ekki þurfa að fara úr flugvélinni í Helsinki og geta því beðið í sætunum sínum áður en ferðinni verður haldið áfram.

Sala á farmiðum er hafin á heimasíðu Juneyao Airlines og algengt verð á flugi báðar leiðir er rétt um 93 þúsund krónur. Farmiðar á fyrsta farrými eru nærri fjórfalt dýrari en eins og sjá má á kynningarmyndbandinu hér fyrir neðan þá ætti ekki að væsa um farþega sem þar sitja.