Leggja til flugbann innan Evrópu

Hækkun á flugsköttum og bann við flugferðum innan Evrópu er meðal þess sem hollenskur stjórnmálaflokkur leggur til.

Mynd: Aman Bhargava / Unsplash

Flugskattur upp á 100 evrur, um 13.700 kr., verður lagður á alla flugfarþega sem fljúga til og frá Hollandi ef hugmyndir Verkamannaflokksins þar í landi verða að lögum. Flokksráð flokksins sendi frá sér þessar tilllögur í síðustu viku og um er að ræða margfalt hærri álögur á flugið en nú eru í gildi þar í landi.

Tilgangurinn með háa gjaldinu er að draga úr fjölda flugferða og þannig minnka losun gróðurhúsalofttegunda vegna samganga í háloftunum.

Tillaga flokksmanna Verkamannaflokksins um að setja algjört bann við flugi innan Evrópu er þó öllu stórtækari en hækkun flugskatta. En forsendan fyrir banninu er sú að lestarsamgöngur milli landa í álfunni verði nægjanlega góðar til að taka við flugumferðinni. Ekki hafa borist fregnir af því hvort aðrir hollenskir flokkar styðji þessi áform Verkamannaflokksins en þingflokkur hans er sá sjöundi fjölmennasti á hollenska þinginu.

Það er engum blöðum um það að fletta að fluggeirinn er undir miklum þrýstingi vegna umræðu um losun frá starfseminni. Fyrr í mánuðinum gagnrýndi forstjóri Wizz Air keppinauta sína fyrir að verja með viðskiptafarrrými í stuttum flugferðum. Forstjóri Lufthansa hefur talað fyrir lágmarks fargjöldum til að draga úr flugumferð og hollenska flugfélagið KLM birtir núna auglýsingar þar sem neytendur eru spurðir hvort þeir þurfi í raun og veru að fljúga.

Ef svarið er já, þá vill forsvarsfólk KLM meina að þeirra flugfélag sé besti kosturinn í ljósi frumkvæðis þeirra í að minnka kolefnisfótspor fyrirtækisins. Samlöndum þeirra í hollenska Verkamannaflokknum þykir þó greinilega ekki nóg að gert.