Líklegir áfangastaðir Play

Auk tveggja sólríkra áfangastaða þá mun flugfélagið Play stefna á flug til fjögurra evrópskra borga til að byrja með. Svo bætast alla vega fjórir við í Norður-Ameríku.

Tölvuteikning: Play

Tvær rauðar Airbus þotur merktar Play munu fljúga farþegum til og frá Keflavíkurflugvelli áður en langt um líður. Fjármögnun flugfélagsins á að vera í höfn og flugrekstrarleyfi innan seilingar samkvæmt því sem kom fram í máli Arnars Más Magnússonar, forstjóra Play, á fundi með blaðamönnum í dag.

Þar sagði hann að fyrst um sinn yrði flogið til sex evrópskra áfangastaða og þar af væru tveir sólarstaðir sem væru Íslendingum kunnir. Má þar gera ráð fyrir að horft sé til Alicante og Tenerife enda hafa Íslendingar fjölmennt þangað síðustu ár. Sérstaklega eftir að WOW air hóf að fljúga til beggja þessara staða allt árið um kring en tveir af fjórum stjórnendum Play eru einmitt úr herbúðum WOW air.

Norska flugfélagið Norwegian hefur hins vegar fyllt skarð WOW air að nokkru leyti í Spánarfluginu og nú fljúga þotur Icelandair, fyrir stærstu ferðaskrifstofur landsins, oftar til þessara staða en áður. Að jafnaði verður flogið til Tenerife sjö sinnum í viku í vetur en ferðirnar til Alicante eru færri og sérstaklega yfir háveturinn. Reynslan sýnir að það eru nær eingöngu Íslendingar sem nýta sér Íslandsflugið frá þessum tveimur áfangastöðum.

Öðu máli gegnir um flug hingað frá Berlín, París, London og Kaupmannahöfn en leiða má líkum að því að þotur Play muni jafnframt setja stefnuna þessar fjórar borgir þegar flugfélagið fer af stað. Til þeirra allra flýgur Icelandair einnig og félagið er auk þess með daglegar brottfarir til New York, Boston, Washington og Toronto sem gætu verið þær fjórar borgir í N-Ameríku sem forsvarsfólk Play horfir til þegar floti félagsins telur orðið sex Airbus A320 þotur.

Miðað við drægni þotanna þá eru bandarísku borgirnar Chicago og Detroit ekki eins ákjósanlegar en WOW bauð upp á ferðir til beggja þessara borga. Flugið til þeirrar síðarnefndu virðist hafa gengið vel því hún var hluti af leiðakerfi WOW fram til loka. Detroit átti líka að vera einn af áfangastöðum hins nýja WOW air sem Skúli Mogensen og lykilstarfsmenn WOW, þar á meðal Arnar Már forstjóri Play, reyndu að koma á laggirnar í vetrarlok.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista