Loks ferðabók um Gran Canaria

Snæfríður Ingadóttir sendir frá sér glænýja handbók fyrir jólin og jafnframt hennar fjórðu ferðabók á tveimur árum. Að þessu sinni er það eyjan Gran Canaria sem Snæfríður tekur fyrir en sambærileg handbók hennar um nágrannaeyjuna Tenerife vakti mikla lukku í fyrra.

Snæfríður og fjölskylda í göngutúr á Gran Canaria í grennd við fræga fornleifastaðinn Fortaleza.

Það er löng hefð fyrir ferðalögum Íslendinga til Kanaríeyja og sérstaklega til Gran Canaria. Þrátt fyrir það hefur ekki mikið verið skrifað um þennan vinsæla áfangastað á íslensku en nú hefur Snæfríður Ingadóttir heldur betur bætt úr því með útgáfu bókarinnar „Gran Canaria – Komdu með til Kanarí“. Þar segir Snæfríður frá ýmsu sem gaman er að upplifa sem ferðalangur á Gran Canaria, meðal annars staði sem áhugavert er að heimsækja og mat sem spennandi er að smakka.

Þetta er fjórða ferðahandbókin á tveimur árum sem Snæfríður sendir frá sér. Í vor gaf hún út krakkahandbók um Tenerife ásamt 11 ára dóttur sinni, Ragnheiði Ingu. Í fyrra kom út handbók eftir hana um íbúðaskipti og handbók um eyjuna Tenerife.

Aðspurð um hver sé stóri munurinn á eyjunum tveimur þá svarar Snæfríður því til að þær hafi báðar sinn sjarma og ómögulegt sé að gera upp á milli þeirra. „Þær eru ólíkar en samt svo líkar. Á báðum stöðum er fjölbreytta náttúru að finna, góðar strendur, skemmtilegar gönguleiðir og frábæra afþreyingu fyrir barnafólk. Tenerife er stærri eyja en Gran Canaria, þar eru t.d. áhugaverðir guanchinche veitingastaðir, pýramídar, mikil bananaræktun, regnskógur og glæsilegur þjóðgarður með hæsta fjalli Spánar. Á Gran Canaria hafa friðuðu sandöldurnar mikið aðdráttarafl, þar er líka að finna skemmtileg hellahús, afar líflega höfuðborg með baðströnd í miðri borg, mikla rommframleiðslu og bragðgott kaffi sem er ræktað á einu kaffiökrum Evrópu í frjósamasta dal eyjunnar. Ég er mjög hrifin af báðum eyjunum,“ segir Snæfríð. Hún bætir því við að þeir sem vilja gera bæði Tenerife og Gran Canaria skil í sömu ferðinni geta flogið á milli fyrir aðeins 20 evrur.

Ferðahandbókin „Gran Canaria – Komdu með til Kanarí“ fæst í Eymundsson og á heimasíðunni lifiderferdalag.is. Og fyrir þá fróðleiksfúsu má benda á að Snæfríður verður með námskeið hjá Endurmenntun í mars þar sem Tenerife og Gran Canaria verða teknar fyrir.