Getum reiknað með ódýrum flugmiðum

Lágt flugmiðaverð er góð leið til markaðssetja nýtt flugfélag. Gera má ráð fyrir að fyrstu skref Play verð sérstaklega þung fari flugfélagið í loftið í ársbyrjun að mati norsks flugsérfræðings.

Tölvuteikning: Play

Rekstur Icelandair er ávallt  í mínus á fyrsta fjórðungi ársins og það sama má segja um flest önnur vestræn flugfélög. Ástæðan er einfaldlega sú að færri á ferðinni yfir háveturinn en aðra mánuði ársins. Engu að síður gera áform Play flugfélagsins ráð fyrir að jómfrúarferðin verði farin stuttu eftir áramót en miðasala en ennþá ekki hafin. Til samanburðar þá hófst miðasala WOW air í nóvember árið 2011 og jómfrúarferðin var svo farin þann 31. maí árið eftir.

„Play verður háð lausafé og því má búast við mjög lokkandi farmiðaverði svo félagið nái að selja eins marga miða og hægt er. Lágt verð virkar alltaf vel til að markaðssetja nýtt flugfélag eða vörumerki,“ segir Hans Jørgen Elnæs, norskur greinandi í flugrekstri hjá WINAIR AS, í samtali við Túrista. En Elnæs hefur ríflega þriggja áratuga reynslu af alþjóðlegum flugrekstri og leita skandinvískir fjölmiðlar reglulega eftir áliti hans þegar kemur að fluggeiranum.

„Ég tel að þetta verði þung byrjun hjá Play þar sem stefnt er að því að hefja áætlunarflug til Evrópu í janúar. Fyrstu þrír mánuðir ársins eru nefnilega þeir veikustu í evrópskum fluggeira þegar litið er til fjölda farþega. Að hluta til má vega það upp með því að bjóða einstaklega ódýra farmiða en þá verður félagið á sama tíma rekið með tapi frá fyrsta degi. Ég myndi telja það vænlegra og áhættuminna að hefja flugreksturinn þegar sumardagskráin hefst í byrjun apríl,“ segir Elnæs.

Líkt og kom fram á blaðamannafundi Play á þriðjudag þá er ætlunin að halda úti flugi til sex áfangastaða í Evrópu en hefja svo flug til Bandaríkjanna næsta vor eða sumar. Elnæs telur það hárrétt hjá Play að gera ráð fyrir að hefja flug til Bandaríkjanna í byrjun sumarvertíðar. „En þá þarf miðasala að hefjast sem allra fyrst eftir áramót.“ bendir jafnframt á að til þess að fá afgreiðslutíma á bandarískum flugvöllum þá skipti sköpum að flugrekandi að geta sýnt fram á rekstrarsögu og líka fjárhagsstöðu. „Flugvellirnir líta því til fjárhagsins og ef hann er ekki nógu sterkur þá fást ekki umbeðnir afgreiðslutímar.“

Fram kom í frétt Kjarnans í gær að forsvarsmenn Play leita nú við­bótar fjár­magns til þess að hefja rekstur flugfélagsins. Nú þegar hafa þeir tryggt sér 40 millj­ónir evra, jafn­virði um 5,5 millj­arða króna, frá breska fjár­fest­inga­sjóðnum Athene Capital, að því fram kemur í kynn­ing­ar­gögnum fyrir fjár­festa samkvæmt heimildum Kjarnans.
Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista