Minna framboð og sætanýtingin eykst

Þotur Icelandair voru þéttsetnari í október en dæmi eru um á þessum tíma árs sl. áratug. Hluta af bætingunni má væntanlega rekja til töluverðs niðurskurðar á framboðnum flugsætum.

Þota Icelandair á flugbraut við Tegel flugvöll í Berlín. Mynd: Berlin Airports

Að jafnaði voru 85,3 prósent sæta í flugvélum Icelandair skipuð farþegum í október. Það er betri nýting en verið hefur í þessum mánuði síðastliðinn áratug samkvæmt því sem sjá má á farþegatölum félagsins. Á sama tíma minnkaði framboð á flugsætum um þrettán prósent.

Þessi bætta nýting er meðal annars áhugaverð í ljósi þess að á þriðja ársfjórðungi lækkaði hlutfall seldra sæta hjá Icelandair þrátt fyrir að helsti keppinauturinn væri horfinn af sjónarsviðinu. Ójafnvægi í leiðakerfi, vegna kyrrsetningar MAX þotanna, var kennt um.

Núna virðist sú staða ekki hrjá félagið þegar litið er til sætanýtingar. Ekki liggur fyrir hvort m.a. megi rekja þessa auknu nýtingu til lægri meðalfargjalda, líkt og stundum er raunin hjá þeim flugfélögum sem veita þannig upplýsingar, eða til fyrrnefnds samdráttar á sætum.

Ef fargjöldin hafa farið hækkandi í október og nýtingin batnað á sama tíma þá gæti sá árangur sannfært stjórnendur Icelandair um að draga jafnvel úr framboði næstu misseri. Markmiðið yrði þá að fá meira fyrir hvert sæti og um leið fljúga þéttsetnari þotum en síðastliðið sumar.

Verði sú stefna ofan á þá gæti það dregið úr fjölda ferðamanna hér á landi á næsta ári enda ekki útlit fyrir í dag að erlend flugfélög bæti samanlagt við framboð sitt á Íslandsflugi. Á sama tíma er ekki ljóst hversu mikið af sætum Play flugfélagið mun hafa á boðstólum. Þannig er ekki víst að félagið fái leyfi fyrir flug til Bandaríkjanna næsta sumar sem er einn af óvissuþáttunum í kringum Play.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista