Ný flugleið til Frakklands næsta sumar

Frakklandsflugið frá Keflavíkurflugvelli næsta sumar mun ekki einskorðast við tíðar ferðir til Parísar.

Frá Nantes. Mynd: Marius Lelouard / Unsplash

Frakkland hefur lengi verið það land sem flestir útlendingar heimsækja og Frakkar eru fjölmennir í hópi ferðamanna hér á landi. Engu að síður hefur fókusinn í Frakklandsflugi Icelandair verið á París á meðan WOW hélt úti flugi til bæði höfuðborgarinnar en líka til Lyon á sumarin. Sumarið 2018 nýttu nærri 19 þúsund farþegar sér flug WOW til þessarar næstfjölmennustu borgar Frakklands. Enginn tók hins vegar upp þráðinn í Lyon eftir fall WOW air.

Aftur á móti hefur lággjaldaflugfélagið Transavia núna sett í sölu vikulegar brottfarir til Íslands frá borginni Nantes næsta sumar. Um er að ræða brottfarir á mánudögum í júlí og ágúst og kosta ódýrustu farmiðarnir, aðra leið, rétt um sex þúsund krónur eða 44 evrur.

Borgin Nantes er í vesturhluta Frakklands og hún liggur því vel við höggi hjá þeim íslensku ferðalöngum sem láta sig dreyma um ferðalag um vesturströnd landsins og Bretaníuskaga þó borgin teljist ekki lengur til þess héraðs.

Auk áætlunarflugsins frá Nantes þá fljúga þotur Transavia til Keflavíkurflugvallar frá París og Amsterdam. Því til viðbótar er Transavia eina erlenda flugfélagið sem flýgur reglulega til Akureyrar en þá frá Rotterdam á sumrin en Amsterdam yfir háveturinn.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista