Play boðar ferða­þjón­ustuna á fund

Forsvarsmenn Play ætla að setjast niður með forsvarsfólki íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja á morgun. Þá eru nærri þrjár vikur frá blaðamannafundi félagsins.

Tölvuteikning frá Play

Biðin eftir því að farmiða­sala Play hefjist hefur verið lengri en ætla mátti miðað við yfir­lýs­ingar forsvars­manna verk­efn­isins á blaða­manna­fundi í byrjun mánaðar og líka í fjöl­miðlum í þarsíð­ustu viku. Á sama tíma liggur ekki fyrir hversu langt fjár­mögnum verk­efn­isins er komin en fullyrt hefur verið að grunn­fjár­mögnun sé í höfn.

Ekki hafa fengist nánari útskýr­ingar á hvað það þýði í raun og veru. En í ljósi þess að sala á farmiðum er ekki ennþá hafin þá virðist sem það fjár­magn, sem nú er í höfn, dugi ekki til að koma félaginu í loft. Þannig fær félagið ekki flugrekstr­ar­leyfi án þess að hafa tryggt sér flugélar. Og án flugrekstr­ar­leyfis er ekki hægt að sækja um afgreiðslu­tíma á flug­völlum. Þeir tímar eru svo forsenda fyrir því að hefja farmiða­sölu.

Forsvars­menn Play vinna því áfram að því að kynna viðskipta­áætlun sína fyrir fjár­festum. Og á morgun mánudag hafa þeir boðað forsvars­fólk íslenskra ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tækja til „fræðslu- og fjár­festa­kynn­ingar” á skrif­stofum sínum.

Í fund­ar­boði segir að Play sé ætlað að fylla það skarð sem WOW air skildi eftir sig og tryggja að ferða­menn geti sótt Ísland með lægri tilkostnaði. „Það gefur auga­leið að með komu Play á mark­aðinn mun eftir­spurnin eftir þjón­ustu ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tækja á Íslandi aukast til muna og mun Play vera gríð­arleg innspýting inn í íslenskt atvinnulíf. Nú gefst ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tækjum á Íslandi tæki­færi á að taka með beinum hætti þátt í endurupp­bygg­ingu íslenskrar ferða­þjón­ustu,” segir jafn­framt í bréfinu.

Líkt og áður hefur komið er stefnt að því að áætl­un­ar­flug Play hefjist í kringum áramót með flugi til sex borga í Evrópu. Í sumar­byrjun er ætlunin að fjórir áfanga­staðir í Norður-Ameríku bætist við.