Play boðar ferðaþjónustuna á fund

Forsvarsmenn Play ætla að setjast niður með forsvarsfólki íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja á morgun. Þá eru nærri þrjár vikur frá blaðamannafundi félagsins.

Tölvuteikning frá Play

Biðin eftir því að farmiðasala Play hefjist hefur verið lengri en ætla mátti miðað við yfirlýsingar forsvarsmanna verkefnisins á blaðamannafundi í byrjun mánaðar og líka í fjölmiðlum í þarsíðustu viku. Á sama tíma liggur ekki fyrir hversu langt fjármögnum verkefnisins er komin en fullyrt hefur verið að grunnfjármögnun sé í höfn.

Ekki hafa fengist nánari útskýringar á hvað það þýði í raun og veru. En í ljósi þess að sala á farmiðum er ekki ennþá hafin þá virðist sem það fjármagn, sem nú er í höfn, dugi ekki til að koma félaginu í loft. Þannig fær félagið ekki flugrekstrarleyfi án þess að hafa tryggt sér flugélar. Og án flugrekstrarleyfis er ekki hægt að sækja um afgreiðslutíma á flugvöllum. Þeir tímar eru svo forsenda fyrir því að hefja farmiðasölu.

Forsvarsmenn Play vinna því áfram að því að kynna viðskiptaáætlun sína fyrir fjárfestum. Og á morgun mánudag hafa þeir boðað forsvarsfólk íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja til „fræðslu- og fjárfestakynningar“ á skrifstofum sínum.

Í fundarboði segir að Play sé ætlað að fylla það skarð sem WOW air skildi eftir sig og tryggja að ferðamenn geti sótt Ísland með lægri tilkostnaði. „Það gefur augaleið að með komu Play á markaðinn mun eftirspurnin eftir þjónustu ferðaþjónustufyrirtækja á Íslandi aukast til muna og mun Play vera gríðarleg innspýting inn í íslenskt atvinnulíf. Nú gefst ferðaþjónustufyrirtækjum á Íslandi tækifæri á að taka með beinum hætti þátt í enduruppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu,“ segir jafnframt í bréfinu.

Líkt og áður hefur komið er stefnt að því að áætlunarflug Play hefjist í kringum áramót með flugi til sex borga í Evrópu. Í sumarbyrjun er ætlunin að fjórir áfangastaðir í Norður-Ameríku bætist við.