Play: Búið er að tryggja grunnfjármögnun með fyrirvörum

Framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa segir Play vera vel útfærðan og áhugaverðan fjárfestingakost.

Tölvuteikning: Play

„Play hefur gert samning við Íslensk verðbréf um að halda utan um fjármögnun á félaginu frá innlendum og erlendum aðilum,“ segir Jóhann M. Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa, aðspurður um fjármögnun flugfélagsins Play. Á blaðamannafundi í morgun kom fram að áttatíu prósent af fjármagni flugfélagsins í upphafi komi frá ónefndu bresku fjárfestingafélagi en Íslensk verðbréf sjái um fimmtunginn.

„Við tókum þetta verkefni að okkur því við teljum þetta mjög vel útfærðan og áhugaverðan fjárfestingakost og fundum strax fyrir miklum áhuga. Búið er að tryggja grunnfjármögnun að uppfylltum vissum fyrirvörum og skilyrðum, svo sem endanlega veitingu flugrekstrarleyfis,“ bætir Jóhann við. Hann segir að áfram verði unnið að því að bæta við fjármagni svo að flugfélagið hafi enn sterkari lausafjárstöðu frá upphafi.

Herma heimildir Túrista að næstu daga séu fyrirhugaðar kynningar á viðskiptaáætlun Play fyrir íslenskum fjárfestum. Mun vera lagt upp með að fjárfestar fái 50 prósent hlutafjár í Play og starfsmenn þess hinn helminginn.

Sem fyrr segir ætlar breskt fjárfestingafélag að leggja flugfélaginu til 80 prósent af því fjármagni sem tryggja á reksturinn í byrjun. Heiti þessa fyrirtækis fæst þó ekki uppgefið og sömu sögu er að segja um heildarupphæðina sem búið er að tryggja. Aðspurður um þessi atriði segir Jóhann að á þessum tímapunkti verði ekki settar fram á nánari upplýsingar um þau mál.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista