Play í samkeppni á öllum leiðum

Líkt og Túristi hafði spáð þá ætlar Play að hefja flug til Alicante, Tenerife, París, Kaupmannahafnar, Berlínar og London. Félagið situr þá ekki eitt að einni einustu flugleið.

ÞOTUR PLAY MUNU LENDA Á KAUPMANNAHAFNARFLUGVELLI ÁÐUR EN LANGT UM LÍÐUR EF FJÁRMÖGNUN FÉLAGSINS KLÁRAST Á NÆSTUNNI. MYND: CPH

Á glærurunum sem forsvarsmenn Play kynna þessa dagana fyrir fjárfestum kemur fram að hinar rauðmáluðu þotur félagsins muni fyrst um sinn fljúga til London, Berlínar, Kaupmannahafnar, Parísar, Alicante og Tenerife. Þetta eru þeir sex evrópsku áfangastaðir sem telja mátti líklegt að yrðu fyrir valinu.

Á öllum þessum sex flugleiðum eru önnur flugfélög fyrir. Þannig flýgur Icelandair daglega til þeirra allra þó Spánarflugið teljist vera leiguflug fyrir ferðaskrifstofur. Norwegian er einnig með tíðar ferðir til bæði Alicante og Tenerife.

Til viðbótar verður Play í samkeppni við Wizz air, easyJet og British Airways í flugi milli London og Íslands þó hið nýja íslenska flugfélag verði það eina sem geri út frá Stansted flugvelli. Í París mun Play þá væntanlega deila Charles de Gaulle flugvelli með Icelandair en frá hinum flugvelli borgarinnar, Orly, flýgur lággjaldaflugfélagið Transavia til Íslands.

Farþegar á leið til Kaupmannahafnar geta, með tilkomu Play, valið á milli fjögurra flugfélaga. Icelandair mun svo ekki lengur sitja lengur eitt að Berlín eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

Áætlun Play gerir ráð fyrir að félagið hefji flug til fjögurra borga í Norður-Ameríku í byrjun næsta sumars. Í ljósi drægni flugvélanna sem notaðar verða má gera ráð fyrir að þeir fjórir áfangastaðir séu Boston, New York, Toronto og Baltimore. Sú síðast nefnda er skammt frá Washington, höfuðborg Bandaríkjanna.

 

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista