Seinkun á MAX þotum skýrði þá lítinn hluta af afkomubatanum

Það mátti skilja kauphallartilkynningu Icelandair á sunnudagskvöld á þann hátt að tilfærsla á kostnaði væri megin skýringin á minni taprekstri í ár. Það var þó ekki aðalástæðan og ennþá er reyndar óljóst hvernig landið liggur vegna trúnaðar um skaðabætur frá Boeing. Svo virðist sem önnur flugfélög hafi ekki ennþá tilkynnt um þess háttar bætur.

MAX þotur við verksmiðjur Boeing. MYND: SOUNDERBRUCE / CREATIVECOMMONS 4.0)

Gengi hlutabréfa í Icelandair tók kipp á mánudag eftir að félagið sendi frá sér tilkynningu þar sem fram kom að tapið á árinu yrði ekki á bilinu 9 til 11 milljarðar króna, eins og áður hafði verið spáð, heldur 4,4 til 6,9 milljarðar kr. Af tilkynningunni mátti ráða að helsta skýringin á þessum nærri fjögurra milljarða króna viðsnúningi væri sá að kostnaður við innleiðingu MAX þotanna í flota félagsins myndi úr þessu ekki falla til að þessu ári heldur færast yfir á það næsta.

Þannig voru tíðindin m.a. túlkuð í frétt Kjarnans og Viðskiptablaðið hafði það eftir Sveini Þórarinssyni, sérfræðingi Landsbankans, að mörgum spurningum væri enn ósvarað varðandi afkomu Icelandair eftir þessa tilkynningu. Hér á síðunni var því haldið fram að hærra farmiðaverð hlyti líka að hafa sitt að segja.

Það reyndist þó ekki vera rétt því tekjur á hvern farþega hjá Icelandair á þriðja ársfjórðungi drógust saman ef horft er til þess að bætur frá Boeing voru færðar sem tekjur. Og ekki virðist sem tilfærsla á kostnaði vegna innleiðingar MAX þotanna hafi heldur vegið eins þungt og skilja mátti í upphafi. Á fundi með fjárfestum í morgun kom það nefnilega fram í máli stjórnenda Icelandair að þessi kostnaðarliður næmi í mesta lagi 10 milljónum dollara. Það er um 1,2 milljarðar króna.

Aðspurður um þennan mismun þá segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, að í tilkynningunni hafi verið tilteknar nokkrar ástæður fyrir afkomubatanum og þær hafi ekki einungis snúið að tilfærslu á þeim kostnaði sem hlýst af MAX kyrrsetningunni.

Í því samhengi má benda á að í tilkynningunni sagði líka að rekja mætti batann í rekstrinum til umbóta í leiðakerfinu og bættrar tekjustýringar og þá sérstaklega á síðasta fjórðungi ársins.

En sem fyrr segir þá voru skaðabætur frá Boeing færðar sem farþegatekjur að hluta í uppgjöri fyrir þriðja ársfjórðung en einnig til lækkunar á kostnaði. Um er að ræða bætur sem Icelandair samdi um við Boeing í haust en í gær var jafnframt tilkynnt um nýtt samkomulag um sárabætur frá flugvélaframleiðandanum.

Það vekur hins vegar athygli að það virðist sem Icelandair sé einn af fyrstu viðskiptavinum Boeing, ef ekki sá fyrsti, til að ganga frá samningum við Boeing um skaðabætur vegna MAX þotanna. Alla vega er ekki að finna neinar tilkynningar til um þess háttar á fjárfestasíðum bandarískra og evrópskra flugfélaga samkvæmt því sem Túristi kemst næst.

Hver er skýringin á því? „Við getum ekki tjáð okkur um hvernig önnur flugfélög, sem eru með MAX, nálgast samningaviðræður við Boeing. Við höfum ákveðið að fara þessa leið en ljóst er að endanlegar niðurstöður viðræðnanna munu ekki liggja fyrir fyrr en kyrrsetningunni hefur verið aflétt og heildartjónið liggur fyrir,“ segir Bogi Nils í svari til Túrista.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista