Sjóböðin verðlaunuð á ný

Sjóböðin á Húsavík hljóta nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar árið 2019.

Útsýnið frá Sjóböðunum á Húsavíkurhöfða. Mynd: Sjóböðin

Sjóböðin á Húsavík hljóta nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar árið 2019 en viðurkenningin er afhent á afmælisdegi Samtaka ferðaþjónustunnar, 11. nóvember ár hvert. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Sjóböðunum á Húsavík verðlaunin við hátíðlega athöfn á Center Hotels við Laugaveg í Reykjavík í gær. Þetta eru önnur verðlaunin sem Sjóböðin hljóta nú í nóvember í því um mánaðamótin var fyrirtækið valið sproti ársins á uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi.

Í tilkynningu frá Samtökum ferðaþjónustunnar, SAF, kemur fram að nýsköpunarverðlaunin séu veitt fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan samtakanna til nýsköpunar. „Verðlaununum er ætlað að hvetja frumkvöðla landsins til dáða í ferðaþjónustu. Þetta er í sextánda skipti sem SAF veita nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar en þetta árið bárust 32 tilnefningar í samkeppninni um verðlaunin,“ segir jafnframt í tilkynningu.

Sjóböðin voru þó ekki eina fyrirtækið sem fékk viðurkenningu frá SAF í gær því dómnefnd nýsköpunarverðlaunanna ákvað að tilnefna þrjú fyrirtæki sem áttu kost á að hljóta verðlaunin. Auk Sjóbaðanna á Húsavík hlutu Hótel Ísafjörður og Icelandic Lava Show nýsköpunarviðurkenningu ferðaþjónustunnar árið 2019.

„Sem fyrr endurspegla tilnefningarnar til nýsköpunarverðlauna ferðaþjónustunnar mikla grósku og nýsköpun í ferðaþjónustu um allt land. Hugmyndaauðgi, stórhugur og fagmennska einkennir mörg þau fyrirtæki sem tilnefnd voru og var dómnefnd því ákveðinn vandi á höndum. Nefndarmenn voru þó einróma um að handhafi verðlaunanna í ár séu Sjóböðin á Húsavík,“ segir í tilkynningu.

Sjóböðin á Húsavík opnuðu síðla sumars árið 2018 en líkt og kom fram í viðtali Túrista við Sigurjón Steinsson, framkvæmdastjóra Sjóbaðanna, þá hafa Íslendingar sjálfir sótt meira í sjóböðin en upphaflega var gert ráð fyrir.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista