Skera niður allt Ameríkuflug frá Kaupmannahöfn og Stokkhólmi

Skandinavía er of lítil fyrir útgerð á áætlunarflugi til Norður-Ameríku og Asíu frá þremur mismunandi flugvöllum. Þessi stefnubreyting léttir pressuna á Icelandair í Skandinavíu.

Ein af Dreamliner þotum Norwegian. Mynd: Norwegian

Það gekk ekki hnökralaust fyrir sig hjá Norwegian að hefja flug yfir Norður-Atlantshafið fyrir sex árum síðan. Biðin eftir fyrstu Boeing Dreamliner þotunum reyndist nefnilega mun lengri en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir. Hluti af fyrstu breiðþotum Norwegian af þessari gerð voru einmitt keyptar af Icelandair Group á sínum tíma. Þessar flugvélar hafa ekki reynst nógu vel og Rolls-Royce hreyflar þeirra bila reglulega. Og það mun vera ein af ástæðum þess að stjórnendur norska flugfélagsins hafa ákveðið að leggja niður allt Ameríku- og Asíuflug frá Kaupmannahöfn og Stokkhólmi.

Ósló verður hér eftir eini skandinavíski flugvöllurinn sem Norwegian býður upp á flug til annarra heimsálfa samkvæmt tilkynningu frá félaginu. Þar segir að þrátt fyrir aukna eftirspurn eftir flugi Norwegian milli Bandaríkjanna og Evrópu þá sé Skandinavía einfaldlega ekki nógu stórt markaðssvæði fyrir Ameríkuflug frá þremur ólíkum flugvöllum. Danskir og sænskir farþegar Norwegian verða þá hér eftir að fljúga til Gardermoen í Ósló áður en flogið er yfir hafið til Norður-Ameríku eða til Taílands.

SAS, helsti keppinautur Norwegian, hefur lengi boðið upp á lengri flugleggi frá hinum þremur skandinavísku höfuðborgum og hefur til að mynda bætt við ferðum til Bandaríkjanna næsta sumar.

Icelandair er líka stórtækt í Ósló, Stokkhólmi og Kaupmannahöfn og flytur ófáa farþega frá þessum þremur borgum yfir til Bandaríkjanna og Kanada. Af þeim sökum er þessi niðurskurður norska flugfélagsins vafalítið fagnaðarefni hjá stjórnendum Icelandair. Ástæðan er sú að frá Kaupmannahöfn og Stokkhólmi hefur Norwegian flogið beint til bandarískra borga sem Icelandair sinnir líka.