Þrjú flugfélög með MAX í Íslandsflug

Icelandair er ekki eina flugfélagið sem flogið hefur Boeing MAX þotum til og frá Íslandi. Nýjustu fréttir herma kyrrsetningu þotanna verði aflétt á næstunni og þær gætu því verið farnar að flytja farþega í lok vetrar.

Farþegarými Boeing MAX þotu Air Canada. Mynd: Air Canada

Yfir aðalferðamannatímabilið fljúga þotur Air Canada til Íslands frá bæði Montreal og Toronto, tveimur fjölmennustu borgum Kanada. Sumarið 2018 nýtti kanadíska flugfélagið Boeing MAX þotur, sem þá voru splunkunýjar, í ferðirnar hingað en í þeim eru sæti fyrir 169 farþega. Til stóð að hafa sama háttinn á síðastliðið sumar en vegna kyrrsetningar MAX þotanna voru Airbus A319 flugvélar notaðar í staðinn. Í þeim eru aðeins sæti fyrir 136 farþega og þar með drógst sætaframboð Air Canada saman um 231 flugsæti í hverri viku. Það jafngildir um fimmtungi af framboðinu sumarið 2018.

Flugbannið sem sett var á MAX þoturnar olli ekki svona miklum samdrætti í áætlunarflugi Norwegian hingað til lands jafnvel þó félagið hafi notað þessar umtöluðu flugvélar í ferðir sínar hingað frá Skandinavíu. Ástæðan er sú að eldri gerðir af Boeing 737 voru notaðar í staðinn og sætafjöldinn breyttist því ekki sem nokkru nemur.

Næsta sumar gerir flugáætlun Air Canada á ný fyrir því að MAX þotur muni flytja farþega félagsins til Íslands samkvæmt bókunarvél flugfélagsins. Og gera má ráð fyrir að Norwegian nýtti þess háttar flugvélar líka í stakar ferðir hingað frá Ósló. Icelandair verður þar með ekki eina flugfélagið sem ferja mun farþega til og frá Keflavíkurflugvelli á næsta ári í MAX þotum.

Miðað við nýjustu fréttir þá gætu þoturnar komist í loftið í mars líkt og Icelandair og fleiri flugfélög gera ráð fyrir. Í tilkynningu frá Boeing í gær sagði að fyrirtækið ætti von á því að flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum muni heimili fyrirtækinu að hefjast handa við að ferja tilbúnar flugvélar frá verksmiðjum sínum til viðskiptavina um miðjan næsta mánuði.

Algjör aflétting kyrrsetningarinnar gæti svo verið í höfn í janúar og þoturnar þá komnar í farþegaflug á ný í byrjun mars. Það er í takt við yfirlýsingar stjórnenda flugfélaganna Soutwest og American Airlines sem gáfu það út í síðustu viku að þeir reiknuðu fyrst með þotunum í áætlunarflug í lok fyrstu viku marsmánaðar.

Áform Icelandair gera ráð fyrir þessum þotum um miðjan mars en sumaráætlun flugfélaga hefst formlega í lok þess mánaðar.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista