Þrjú flug­félög með MAX í Íslands­flug

Icelandair er ekki eina flugfélagið sem flogið hefur Boeing MAX þotum til og frá Íslandi. Nýjustu fréttir herma kyrrsetningu þotanna verði aflétt á næstunni og þær gætu því verið farnar að flytja farþega í lok vetrar.

Farþegarými Boeing MAX þotu Air Canada. Mynd: Air Canada

Yfir aðal­ferða­manna­tíma­bilið fljúga þotur Air Canada til Íslands frá bæði Montreal og Toronto, tveimur fjöl­menn­ustu borgum Kanada. Sumarið 2018 nýtti kanadíska flug­fé­lagið Boeing MAX þotur, sem þá voru splunku­nýjar, í ferð­irnar hingað en í þeim eru sæti fyrir 169 farþega. Til stóð að hafa sama háttinn á síðast­liðið sumar en vegna kyrr­setn­ingar MAX þotanna voru Airbus A319 flug­vélar notaðar í staðinn. Í þeim eru aðeins sæti fyrir 136 farþega og þar með drógst sætaframboð Air Canada saman um 231 flug­sæti í hverri viku. Það jafn­gildir um fimmt­ungi af fram­boðinu sumarið 2018.

Flug­bannið sem sett var á MAX þoturnar olli ekki svona miklum samdrætti í áætl­un­ar­flugi Norwegian hingað til lands jafnvel þó félagið hafi notað þessar umtöluðu flug­vélar í ferðir sínar hingað frá Skandi­navíu. Ástæðan er sú að eldri gerðir af Boeing 737 voru notaðar í staðinn og sæta­fjöldinn breyttist því ekki sem nokkru nemur.

Næsta sumar gerir flugáætlun Air Canada á ný fyrir því að MAX þotur muni flytja farþega félagsins til Íslands samkvæmt bókun­arvél flug­fé­lagsins. Og gera má ráð fyrir að Norwegian nýtti þess háttar flug­vélar líka í stakar ferðir hingað frá Ósló. Icelandair verður þar með ekki eina flug­fé­lagið sem ferja mun farþega til og frá Kefla­vík­ur­flug­velli á næsta ári í MAX þotum.

Miðað við nýjustu fréttir þá gætu þoturnar komist í loftið í mars líkt og Icelandair og fleiri flug­félög gera ráð fyrir. Í tilkynn­ingu frá Boeing í gær sagði að fyrir­tækið ætti von á því að flug­mála­yf­ir­völd í Banda­ríkj­unum muni heimili fyrir­tækinu að hefjast handa við að ferja tilbúnar flug­vélar frá verk­smiðjum sínum til viðskipta­vina um miðjan næsta mánuði.

Algjör aflétting kyrr­setn­ing­ar­innar gæti svo verið í höfn í janúar og þoturnar þá komnar í farþega­flug á ný í byrjun mars. Það er í takt við yfir­lýs­ingar stjórn­enda flug­fé­lag­anna Soutwest og American Airlines sem gáfu það út í síðustu viku að þeir reiknuðu fyrst með þotunum í áætl­un­ar­flug í lok fyrstu viku mars­mán­aðar.

Áform Icelandair gera ráð fyrir þessum þotum um miðjan mars en sumaráætlun flug­fé­laga hefst form­lega í lok þess mánaðar.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista