Tveir framkvæmdastjórar láta af störfum hjá Isavia

Framkvæmdastjórum Keflavíkurflugvallar verður fækkað úr þremur í tvo vegna skipulagsbreytinga. Til stendur að ráða nýjan framkvæmdastjóra yfir rekstur flughafnarinnar.

Framkvæmdastjórar Keflavíkurflugvallar verða nú tveir í stað þriggja. Mynd: Isavia

Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri viðskiptasvið Keflavíkurflugvallar, og Þröstur Söring, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs flugvallarins, létu af störfum hjá Isavia í dag. Þetta kemur fram í bréfi sem Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, sendi starfsmönnum Keflavíkurflugvallar í dag og Túristi hefur undir höndum. Þar segir að tekin hafi verið ákvörðun um skipulagsbreytingar á Keflavíkurflugvelli með það að markmiði að tengja betur saman þjónustu við viðskiptavini og þróun flugvallarins, bæði núverandi og til framtíðar.

„Samhliða verða gerðar þær breytingar að viðskiptasvið, rekstrarsvið og tækni- og eignasvið verða sameinuð í tvö ný svið. Ítarlegri vinna við nánari útfærslu á þeim breytingum hefst núna. Í þeirri vinnu er mikilvægt að við leggjum öll okkar lóð á vogarskálarnar til að vel takist til við breytingarnar. Endanleg útfærsla verður svo kynnt síðar,“ segir Sveinbjörn í bréfinu.

Guðmundur Daði Rúnarsson sem starfað hefur sem framkvæmdastjóri tækni- og eignasviðs Keflavíkurflugvallar mun nú leiða þann hluta sem snýr að þjónustu við viðskiptavini, vöruframboð og þróun flugvallarins. Þá mun Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia, taka tímabundið við verkefnum sem snúa að rekstri hans samkvæmt því sem segir í bréfinu. Sú staða sem snýr að rekstri Keflavíkurflugvallar verður auglýst fljótlega.