Útilokar ekki íslenska fjárfestingu

Einn helsti hóteleigandi og ferðafrömuður Norðurlanda hefur aukið umsvif sín verulega síðustu ár. Ennþá hefur hann þó ekki fjárfest hér á landi. Túristi leitaði skýringa á því.

Petter Stordalen á góðri stundu. Mynd: Hans-Olav Forsang

Það líða ekki margir dagar á milli þess sem skandinavíska viðskiptapressan flytur fréttir af norska hóteljöfrinum Petter Stordalen. Og þess á milli birta slúðurblöðin svo nýjustu tíðindin úr einkalífi hans enda er Stordalen litríkur og rogginn karl sem sækist í sviðsljósið.

En burt séð frá einkalífi Stordalen þá hefur hann verið einstaklega stórtækur í fjárfestingum síðustu ár. Ný hótel bætast Choice hotels keðjuna hans með jöfnu millibili og með kaupum sínum í vor á finnsku hótelkeðjunni Kämp Collection náði hann þeim merka áfanga að vera orðinn eigandi að samtals tvö hundrað hótelum en bróðurpartur þeirra er á hinum Norðurlöndunum.

Umsvif Stordalen takmarkast þó ekki við hótelgeirann og hann var einn af þremur fjárfestum sem nú hafa tekið yfir rekstur Thomas Cook ferðaskrifstofuveldisins á Norðurlöndum. Það fyrirtæki rekur nokkrar af umsvifamestu ferðaskrifstofum Norðurlanda enda segir Stordalen að þessi hluti heimsins sé ávallt í fókus í öllu því sem hann gerir.

Þrátt fyrir að einblína á Norðurlöndin þá hefur Stordalen ekki látið til sín taka á íslenska markaðnum jafnvel þó ferðaþjónusta landsins hafi verið í örum vexti. Aðpurður um skýringar á því þá segir blaðafulltrúi Stordalen, í svari til Túrista að fyrirtækið hafi vaxið mjög kröftuglega á norræna markaðnum að undanförnu. „Við höfum ekki ennþá farið inn á íslenska markaðinn en við erum fyrirtæki sem er með vöxt í DNA-inu okkar þannig að ef áhugavert verkefni kemur inn á borð til okkar þá munum við örugglega vega það og meta.“

Þá er spurning hvort Stordalen verði innan fárra ára orðin stórtækur í íslenskum ferðageira og þannig með umsvif á öllum fimm Norðurlöndunum.
Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista