Varhugavert að vera algjörlega háður bókunarsíðum

Til hvaða ráða getur forsvarsfólk íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja gripið til að spara sér þóknanir til milliliða? Farið verður í gegnum hvaða lausnir eru í boði í fyrirlestri Hermanns Valssonar í Íslenska ferðaklasanum seinni partinn í dag.

Mynd: Phife / Unsplash

Um það bil sjö til níu milljarðar króna fóru út úr íslenska hagkerfinu á síðasta ári til Bandaríkjanna í formi bókunargjalda samkvæmt mati Hermanns Valssonar, kerfis- og ferðamálafræðings. Í tilefni af erindi hans í Íslenska ferðaklasanum síðar í dag þá lagði Túristi fyrir hann nokkrar spurningar um hvernig mætti lækka þá þóknun sem íslensk ferðaþjónustufyrirtæki greiða í dag til milliliða.

Hvað geta hótel- og gistihúsa eigendur gert til að fá fleiri bókanir beint?
Það fyrsta er að taka stöðuna og fá staðreyndir upp á borðið varðandi hlutfall beinna bókana. Hvert er hlutfall beinna bókana, pantana í gegnum ferðaskrifstofur og svo aðra söluaðila? Ef hlutfall beinna bókana er lægra en 40 prósent þá þarf að bregðast strax við og lagfæra heimasíður og fleira. Svo lágt hlutfall er því miður mjög algengt hjá litlum og meðalstórum aðilum og eftir því sem ég kemst næst og þá er viðkomandi algjörlega háður erlendum bókunarsíður og hefur ekki stjórn á sölumálunum sínum. Ef hlutfall beinna bókana er hærra en 40 prósent þá er staðan viðunandi en þá þarf að sjálfsögðu að meta stöðuna frá mánuði til mánaðar og bregðast við ef þetta hlutfall fer niður fyrir þröskuldinn.

Er raunhæft fyrir íslenska ferðaþjónustu að sameinast gegn bókunarrisunum?
Já, það er ekki bara raunhæft heldur einnig lífsspursmál fyrir íslenska ferðaþjónustu að sameina krafta sína. Skipuleggja hvernig best er að vinna með þeim og um leið hvernig best er að gæta hagsmuna Íslands og fyrirtækjanna. Þetta er mjög undarlega staða sem best er að skýra sem einskonar ástar- og haturs samband.
Góður vísir að þessu samstarfi er „Inspired by Iceland“ en þar má finna góðan gagnagrunn undir nafninu „Plan Your Trip To Iceland“ þar sem hægt að leita eftir mismunandi ferðatengdri þjónustu. Þessi hluti síðunnar gæti og ætti að gegna miklu mikilvægari hlutverki en verið hefur hingað til. Vandinn við „Inspired By Iceland“ herferðina er slakur sýnileiki hennar þegar leitað er af t.d. gistingu á Íslandi. Ég hef kannað þetta frá 2013 og á til gögn sem sýna að „Inspired By Iceland“ kemur ekki upp á leitarniðurstöðum hjá t.d. Google.
Á sama tíma hefur heimasíða Höfuðborgarstofu komið mjög vel út þegar leitað er eftir „hotels Reykjavik“.

Innan Evrópusambandsins hafa verið umræður um að takmarka umsvif bókunarsíðna líka Google á þessu sviði. Hvaða vonir má binda við að hertar reglur?
Þegar kemur að boðum og bönnum á starfsemi á Internetinu þá er það mjög erfið vegferð og þarf að fara varlega. Það þarf að halda áfram þeirri aðgerð sem ESB fór í árið 2015 sem gekk út á að taka á brotum bókunavéla á samkeppnislögum. Sex af aðildarríkjum ESB; Austurríki, Belgía, Frakkland, Þýskaland, Ítalía og Svíþjóð hafa lögfest mjög afgerandi lög sem lúta að ofríki bókunarvéla hvað varðar rétt hótela að bjóða betri verð á sínum heimasíðum. Fyrir daga stafrænna viðskipta þá gátu hótelin boðið þau verð sem þeim sýndist og það verklaga á að gilda áfram.

Sumir hafa beint á að markaðskostnaður ferðaþjónustufyrirtækja myndi aukast ef ekki væri fyrir bókunarsíður. Hvert er þitt mat á því?
Það er ekki til eitt svar við þessari spurningu. Ferðaþjónustufyrirtækin okkar eru svo gríðarlega mismunandi. Þau eru frá mjög stórum fyrirtækjum sem velta mörgum milljörðum og niður í eins manns starfsemi. Það er ekki nein ein lausn sem hentar öllum.
Besta lausnin hér er blönduð nálgun. Það verða allir sem koma að ferðaþjónustunni að koma inn í þennan nýja heim. Stafræni veruleikinn er ekki að hverfa og mun verða mikilvægari og því þarf að fara á fullt að læra að tileinka sér þessa nýju tækni. Nota hana á fullu samhliða bókunarsíðunum en reyna alltaf að ná inn beinum bókunum en um leið að þakka fyrir pantanir sem koma eftir öðrum leiðum. Við verðum að muna að þegar bókunarsíðurnar koma, fram fyrir um aldarfjórðungi síðan, þá óskuðu þær eftir sex prósent þóknun. Núna krefjast þær a.m.k. þrefalt hærri þóknunar og jafnvel fimmfalt hærri.

Fyrirlestur Hermanns hefst kl. 17:15 í dag í húsnæði Íslenska Ferðaklasans, Fiskislóð 10, 2.hæð. Verð á fyrirlesturinn er 7.500 kr. en frítt er fyrir þá sem eru meðlimir í Baklandi Ferðaþjónustunar á Facebook. Sjá nánar hér.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista