Verra veður og færri ferðir hafa áhrif á innanlandsflugið

Líkt og undanfarin misseri þá fækkar þeim farþegum sem fljúga milli íslenskra flugvalla.

flugvel innanlands isavia
Mynd: Isavia

Það voru 61.399 farþegar sem fóru um innanlandsflugvelli landsins í október eða rétt rúmlega níu þúsund færri en á sama tíma í fyrra. Hlutfallslega nemur samdrátturinn um tólf af hundraði samkvæmt tölum Isavia.

Hluta af þessari niðursveiflu skrifast á vont veður í síðasta mánuði. Þannig þurfti Air Iceland Connect að fella niður rúmlega fimmtungi fleiri ferðir í október í samanburði við sama tíma í fyrra að sögn Árna Gunnarssonar, framkvæmdastjóra flugfélagsins. Hann bendir jafnframt á að brotthvarf flugleiðarinnar á milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar skýri um fjórðung af fækkuninni á Akureyrarflugvelli.

Bæði Air Iceland Connect og Flugfélagið Ernir gripu til þess að fækka ferðum nú í vetur og þar með má gera ráð fyrir að farþegafjöldinn í innanlandsfluginu dragist áfram saman næstu mánuði. En allt frá því í janúar í fyrra hefur farþegum fækkað mánuð frá mánuði.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista