„Við getum ekki flogið í tapi bara til að halda öðrum frá“

Það stefnir í að Icelandair flytji aðeins færri farþega á næsta ári. Forstjórinn segir flugfélög almennt varkár um þessar mundir.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group. Myndir: Icelandair

Á næsta ári verður áherslan lögð á að bæta afkomuna í leiðakerfi Icelandair og um leið minnka áhættuna vegna MAX þotanna. Þetta segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, um flugáætlun félagsins á næsta ári sem birt var í gær. Að hans sögn verður áfram lögð megin áhersla á ferðamannamarkaðinn til Íslands.

Gert er ráð fyrir 4,2 milljónum farþega um borð í þotum Icelandair árið 2020. Til samanburðar stefnir í að farþegafjöldinn í ár verði um 4,5 milljónir miðað við farþegatölur fyrstu tíu mánuði ársins.

Bogi segist ekki óttast að með þessum breytingum aukist líkurnar á að erlend flugfélög sæki á íslenska markaðinn eða að til verði aukið rými fyrir önnur íslensk flugfélög? „Samkeppnin er mikil og flugfélög sífellt að skoða tækifæri á sínum svæðum. Við getum ekki flogið í tapi bara til að halda öðrum frá. Við stundum ekki þess háttar leiki.“

Mestu munar um niðurskurð á framboði í flugi til Norður-Ameríku um 11 prósent. Á sama tíma sjá nokkur önnur evrópsk flugfélög sóknarfæri í auknu flugi vestur um haf á næstu misserum. Eins var sætanýtingin í Ameríkuflugi stærstu flugfélaga Evrópu góð í sumar.

Aðspurður um afhverju Icelandair dragi aftur á móti saman í Bandaríkjunum þá segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, að félagið hafi verið með framboð sem ekki hafi verið arðbært. „Við viljum ná ákveðnum grunni og vaxa út frá því. Flugfélög eru almennt varkár í áætlunum sínum fyrir nánustu framtíð og nýjasta dæmið um það er niðurskurður Norwegian í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi. Nú er áherslan hjá okkur og mörgum öðrum flugfélögum fyrst og fremst á arðbærni í stað vaxtar.“

Í því samhengi má benda á að Icelandair hefur lengi verið með mun meira framboð á ferðum til Bandaríkjanna en önnur norræn flugfélög. Eins var íslenska félagið á tímabili það evrópska flugfélag sem flaug til flestra áfangastaða í Bandaríkjunum að British Airways frátöldu.

Áfram verður megin áherslan hjá Icelandair á ferðamannamarkaðinn til Íslands líkt og í ár sem hefur orðið til þess að hlutfall ferðafólks á leið til Íslands hefur hækkað á kostnað tengifarþega. Er Icelandair að breytast í flugfélag sem aðallega flytur fólk til og frá Íslandi? „Nei, alls ekki. Hlutfall tengifarþega var komið yfir helming og áfram er hlutfallið hátt, í kringum fjörutíu prósent. Við sjáum framtíð í tengiflugi og fókusum á það áfram. Á þessu ári og því næsta lækkar hlutfall tengifarþega en það fer ekki mikið neðar,“ svarar Bogi og bætir því að leiðakerfið þoli þennan samdrátt en vægi þeirra sem aðeins millilenda hér á landi megi þó ekki fara mikið neðar.

Bogi vill ekki segja hversu miklu munar á tekjunum af tengifarþegum og hinum þegar horft er til tekna á hvern floginn kílómetra. „Við gefum ekki út hversu mikill munurinn er. Markaðurinn yfir hafið er erfiður og fargjöldin þar eru tiltölulega lág. Það er því gott að hafa sveigjanlegt leiðakerfi og geta aðlagað framboðið eftir markaðnum.“

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista