„Við getum ekki flogið í tapi bara til að halda öðrum frá”

Það stefnir í að Icelandair flytji aðeins færri farþega á næsta ári. Forstjórinn segir flugfélög almennt varkár um þessar mundir.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group. Myndir: Icelandair

Á næsta ári verður áherslan lögð á að bæta afkomuna í leiða­kerfi Icelandair og um leið minnka áhættuna vegna MAX þotanna. Þetta segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, um flugáætlun félagsins á næsta ári sem birt var í gær. Að hans sögn verður áfram lögð megin áhersla á ferða­manna­mark­aðinn til Íslands.

Gert er ráð fyrir 4,2 millj­ónum farþega um borð í þotum Icelandair árið 2020. Til saman­burðar stefnir í að farþega­fjöldinn í ár verði um 4,5 millj­ónir miðað við farþega­tölur fyrstu tíu mánuði ársins.

Bogi segist ekki óttast að með þessum breyt­ingum aukist líkurnar á að erlend flug­félög sæki á íslenska mark­aðinn eða að til verði aukið rými fyrir önnur íslensk flug­félög? „Samkeppnin er mikil og flug­félög sífellt að skoða tæki­færi á sínum svæðum. Við getum ekki flogið í tapi bara til að halda öðrum frá. Við stundum ekki þess háttar leiki.”

Mestu munar um niður­skurð á fram­boði í flugi til Norður-Ameríku um 11 prósent. Á sama tíma sjá nokkur önnur evrópsk flug­félög sókn­ar­færi í auknu flugi vestur um haf á næstu miss­erum. Eins var sæta­nýt­ingin í Amer­íkuflugi stærstu flug­fé­laga Evrópu góð í sumar.

Aðspurður um afhverju Icelandair dragi aftur á móti saman í Banda­ríkj­unum þá segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, að félagið hafi verið með framboð sem ekki hafi verið arðbært. „Við viljum ná ákveðnum grunni og vaxa út frá því. Flug­félög eru almennt varkár í áætl­unum sínum fyrir nánustu framtíð og nýjasta dæmið um það er niður­skurður Norwegian í Kaup­manna­höfn og Stokk­hólmi. Nú er áherslan hjá okkur og mörgum öðrum flug­fé­lögum fyrst og fremst á arðbærni í stað vaxtar.”

Í því samhengi má benda á að Icelandair hefur lengi verið með mun meira framboð á ferðum til Banda­ríkj­anna en önnur norræn flug­félög. Eins var íslenska félagið á tíma­bili það evrópska flug­félag sem flaug til flestra áfanga­staða í Banda­ríkj­unum að British Airways frátöldu.

Áfram verður megin áherslan hjá Icelandair á ferða­manna­mark­aðinn til Íslands líkt og í ár sem hefur orðið til þess að hlut­fall ferða­fólks á leið til Íslands hefur hækkað á kostnað tengifar­þega. Er Icelandair að breytast í flug­félag sem aðal­lega flytur fólk til og frá Íslandi? „Nei, alls ekki. Hlut­fall tengifar­þega var komið yfir helming og áfram er hlut­fallið hátt, í kringum fjörutíu prósent. Við sjáum framtíð í tengiflugi og fókusum á það áfram. Á þessu ári og því næsta lækkar hlut­fall tengifar­þega en það fer ekki mikið neðar,” svarar Bogi og bætir því að leiða­kerfið þoli þennan samdrátt en vægi þeirra sem aðeins milli­lenda hér á landi megi þó ekki fara mikið neðar.

Bogi vill ekki segja hversu miklu munar á tekj­unum af tengifar­þegum og hinum þegar horft er til tekna á hvern floginn kíló­metra. „Við gefum ekki út hversu mikill munurinn er. Mark­að­urinn yfir hafið er erfiður og fargjöldin þar eru tiltölu­lega lág. Það er því gott að hafa sveigj­an­legt leiða­kerfi og geta aðlagað fram­boðið eftir mark­aðnum.”

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista