Vinnustofur ferðaþjónustunnar út um allt land

Áhugafólk um þróun ferðaþjónustunnar til næstu ára hefur nú tækifæri á að láta til sín taka.

Ferðafólk við Seljalandsfoss. Mynd: Curren Podlesny / Unsplash

Hafin er vinna við aðgerðabundna stefnumótun fyrir ferðaþjónustu á Íslandi til ársins 2025 og af því tilefni er boðað til opinna vinnustofa víða um land á næstu tveimur vikum. Í frétt á vef Stjórnarráðsins segir að þar verði ræddar sviðsmyndir um þróun ferðaþjónustunnar til næstu ára. Jafnframt verða teknar fyrir þær leiðir sem er mikilvægt að fara til að ná framtíðarsýn og leiðarljósi ferðaþjónustunnar um að vera leiðandi í sjálfbærni.

Hver vinnustofa er um þrjár klukkustundir og unnið er í hópum að mismunandi meginmálefnum. Til að mynda um ávinning heimamanna, upplifun ferðamanna, verðmæta markaði, álagsstýringu og gæði áfangastaða, arðsemi og nýsköpum og loftslagsmál og orkuskipti.

Vinnustofurnar eru haldnar sem hér segir:

Ísafjörður, Edinborgarhúsið – Þriðjudagur 26. nóvember kl. 13-16
Borgarnes, B59 Hótel – Fimmtudagur 28. nóvember kl. 13-16
Höfn, Hótel Höfn – Föstudagur 29. nóvember kl. 13-16
Egilsstaðir, Hótel Hérað – Miðvikudagur 4. desember kl. 15-18
Akureyri, menningarhúsið Hof – Fimmtudagur 5. desember kl. 13-16
Selfoss, Tryggvaskáli – Föstudagur 6. desember kl. 13-16
Reykjavík, Grand Hótel Reykjavík – Þriðjudagur 10. desember kl. 13-16