Vonast eftir að fljúga fleiri Íslendingum að Miðjarðarhafinu

Tíðar ferðir milli Íslands og Prag næsta sumar auka valkosti þeirra sem eru að leið í sólina í suðurhluta Evrópu.

Til Dubrovnik í Króatíu má komast með millilendingu í Prag fyrir um 58 þúsund krónur. Ferðalagið tekur um hálfan sólarhring. Mynd: Spencer Davis / Unsplash

Frá Václav Havel flugvelli í Prag fljúga þotur systurfélaganna Czech Airlines og Smartwings títt til borga sem liggja við Miðjarðarhafið. Og stjórnendur félaganna gera sér vonir um að næsta sumar verði fleiri Íslendingar um borð í ferðunum suður á bóginn að sögn Vladimira Dufkova, talskonu Smartwings samsteypunnar. Ástæðan er sú næsta sumar mun Czech Airlines bjóða upp á daglegar ferðir milli Íslands og Prag í stað þriggja brottfara í viku.

Þar með aukast möguleikarnir á tengiflugi frá Prag til Ítalíu, Króatíu, Bosníu eða jafnvel Frakklands. Samkvæmt athugun Túrista mega farþegar þó oft gera ráð fyrir langri bið á flugvellinum í Prag því þotan frá Íslandi fer í loftið um miðnætti og lendir hálf sjö að morgni í Tékklandi. Brottfarir til Suður-Evrópu frá Prag virðast flestar vera á dagskrá eftir hádegi. Kosturinn er hins vegar sá að hægt er að kaupa báða leggi á einum flugmiða og farþeginn er því á ábyrgð flugfélagsins ef seinkanir verða.

Talskona Czech Airlines segir annars að fjölgun ferða til Íslands skrifist ekki aðeins á fyrrnefnt tækifæri í fleiri sólþyrstum íslenskum farþegum heldur líka þeirri staðreynd að eftirspurn eftir fluginu milli íslands og Tékklands er mikil.

Til marks um það þá býður tékkneska flugfélagið í vetur upp á daglegar ferðir hingað frá Prag en þó með millilendingu í Kaupmannahöfn. Farþegar geta því valið á milli þess að fljúga aðeins til Danmerkur eða halda áfram til Tékklands líkt og Túristi hefur áður fjallað um.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista