Aðeins Kýpverjar stoppa lengur en Íslendingar

Að jafnaði dvelja íslenskir túristar 3,6 nætur í Berlín. Það er nokkru lengri dvöl en aðrir evrópskir ferðamenn láta eftir sér að Kýpverjum undanskildum.

Þrátt fyrir nokkru færri íslenska túrista í Berlín í september þá hefur gistinóttum landans fjölgað í ár. Mynd: Anthony Reungère / Unsplash

Íslendingar bókuðu rúmlega 33 þúsund gistinætur á berlínskum hótelum fyrstu níu mánuði ársins. Það er þrjú prósent aukning frá sama tíma í fyrra. Það vekur nokkra athygli enda hefur framboð á flugi milli Íslands og Berlínar minnkað töluvert eftir fall WOW air í lok mars þó Icelandair hafi bætt töluvert í flug sitt til borgarinnar eftir að keppinauturinn hvarf af sjónarsviðinu.

Þegar árið verður gert upp gæti fjöldi íslenskra hótelnótta í borginni farið undir summu síðasta árs því til að mynda fækkaði gistinóttum Íslendinga í Berlín í september um 17 prósent.

Þegar litið er til þess hversu lengi evrópskir ferðamenn stoppa í þýsku höfuðborginni þá kemur í ljós að Kýpverjar dvelja lengst eða að jafnaði í 3,7 nætur en í öðru sæti eru Íslendingar með 3,6 nætur. Meðaldvöl evrópskra gesta er aftur á móti 2,8 nætur samkvæmt tölum frá ferðamálaráði borgarinnar.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista