Aldrei fleiri flugferðir á jóladag

Á dagskrá Keflavíkurflugvallar í dag eru níu brottfarir. Svo margar hafa þær ekki verið á þessu minnsta ferðadegi ársins.

kef taska 860
Þotur Wizz Air fljúga héðan fimm ferðir í dag. Mynd: Isavia

Það tíðkaðist lengi að allar hefðbundnar samgöngur, til og frá landinu, lágu niðri á jóladag. Síðustu ár hafa erlendu flugfélögin þó rofið hefðina með stöku ferðum hingað á þessum tiltekna degi.

Á jóladag í fyrra var umferðin til að mynda óvenju fjölbreytt en þá voru í boði fimm ferðir héðan til útlanda. Það met verður rækilega bætt í dag með níu brottförum til jafn margra borga.

Sú fyrsta var reyndar á dagskrá klukkan eitt í nótt þegar flugvél Wizz air flaug héðan til Varsjár. Þetta ungverska flugfélag stendur svo fyrir fjórum fleiri ferðum frá Keflavíkurflugvelli fram til miðnættis í kvöld. Fyrst til pólsku borganna Katowice og Wroclaw og einnig til Riga í Lettlandi. Að lokum kemur ein af þotum Wizz Air hingað frá Luton við Lundúnir og flýgur svo aftur til Bretlands í kvöld. 

Af farmiðaverðinu að dæma er þó nokkuð af lausum sætum í þessar fjórar ferðir því þeir ódýrustu kosta rétt um 10 þúsund krónur. 

Næst umsvifamest í dag er SAS en þotur þess félags fljúga héðan í hádeginu til bæði Óslóar og Kaupmannahafnar. Farið í þessar ferðir er miklu dýrara en í tilfelli Wizz Air.

Til Las Palmas á Kanaríeyjum má svo komast með Norwegian síðar í dag og er ódýrasta sætið á um 54 þúsund krónur. Það er töluverð lækkun frá því fyrir helgi þegar miðinn í þessa jóladagsferð var um þrefalt dýrari.

Í kvöld efnir Transavia svo til kvöldferðar til Amsterdam og núna kostar farið um 10 þúsund krónur.

FINNST ÞÉR EITTHVAÐ SPUNNIÐ Í TÚRISTA?