Arion telur ekki að útspil Andra Más spilli fyrir sölunni

Á sama tíma og Arion banki reynir að selja fyrrum ferðaskrifstofur Andra Más Ingólfssonar þá leggur hann sjálfur drög að endurkomu sinni í ferðageirann.

Þota Primera Air í London. Gjaldþrot flugfélagsins reyndist það mikið högg fyrir Primera Travel Group að Andri Már missti fyrirtækið í hendur Arion banka, helsta lánveitanda samsteypunnar. Mynd: London Stansted

Það var í lok júní sem Arion banki tók yfir þær sjö ferðskrifstofur sem áður tilheyrðu Primera Travel samsteypu Andra Más Ingólfssonar. Við yfirtökuna var það yfirlýst markmið bankans að koma ferðaskrifstofunum í verð sem fyrst en ennþá hefur aðeins ein þeirra verið seld.

Í dag er Arion banki því eigandi að fimm ferðaskrifstofum á hinum Norðurlöndunum auk Heimsferða sem lengi hefur verið ein umsvifamesta ferðaskrifstofan hér landi. Og núna undirbýr Andri Már stofnun nýrrar íslenskrar ferðaskrifstofu líkt og Túristi greindi frá í gær. Sú hefur hlotið heitið Aventura Holidays og mun taka til starfa í næsta mánuði.

Samkvæmt svari frá Arion banka þá er ekki litið svo á sem þetta útspil stofnanda Primera Travel Group dragi úr líkunum á að bankinn finni ferðaskrifstofunum nýja eigendur. Í svari bankans er bent á að um sé að ræða rótgrónar ferðaskrifstofur sem allar eru í söluferli.

Í því samhengi má rifja upp að um miðjan nóvember sagði Fréttablaðið frá því að sala á hinum erlendu ferðaskrifstofum Arion banka væri á lokametrunum og vonir stæðu til að salan kláraðist um síðustu mánaðamót. Það gekk þó ekki eftir en samkvæmt heimildum Túrista þá hefur evrópska fjárfestingafélagið Triton skoðað kaup á ferðaskrifstofunum. Það fyrirtæki keypti nýverið stóran ferðaskipuleggjandi í Hollandi og var lengi orðað við norræna starfsemi Thomas Cook samsteypunnar.

Talsmaður Triton hefur þó ekki viljað tjá sig um möguleg kaup á ferðaskrifstofum Arion banka við Túrista. Heimsferðir munu ekki vera hluti af þeim kaupviðræðum.

Líkt og kom fram í frétt Túrista í gær þá er ætlunin að hin nýja ferðaskrifstofa Andra Más nýti sér „nýjustu tækni í þróun bókunarkerfa til að finna hægkvæmustu ferðir fyrir viðskiptavini sína“ samkvæmt því sem segir í atvinnuauglýsingu Aventura. Af þessum texta að dæma þá virðist sem ferðaskrifstofan ætli sér að leggja sérstaklega áherslu á að para saman flugmiða í áætlunarflugi og svo gistingu sem þá mögulega er fengin í gegnum stórar bókunarsíður. Áherslan á klassískar pakkaferðir, líkt og ferðaskrifstofur Andra Más hafa sérhæft sig í hingað til, eru því ekki endilega í forgangi.

Ef þetta er hugmyndin að baki Aventura þá þarf Andri Már að treysta á áætlunarflug til og frá landinu til að koma viðskiptavinum sínum á áfangastað. Hvort þessi tilgáta reynist rétt kemur væntanlega í síðasta lagi í ljós þegar heimasíða Aventura fer í loftið en sem fyrr segir þá hefur Andri Má ekki svarað fyrirspurn Túrista um áform sín.