Bætur í formi afslátta af Boeing þotum

Stjórnendur Southwest flugfélagsins hafa samið við Boeing um hluta af þeim skaðabótum sem flugvélaframleiðandinn þarf að greiða vegna kyrrsetningar MAX þotanna.

Mynd: Southwest Airlines

Í flota bandaríska flugfélagsins Southwest eru 753 flugvélar og allar eru þær af gerðinni Boeing 737. Þar af eru 37 Boeing 737 MAX en samtals hefur félagið pantað hátt í þrjú hundruð þotur af þessari gerð. Ekkert flugfélag er eins stórtækt í kaupum á þessum umtöluðu þotum.

Stjórnendur Southwest gáfu það svo út í dag að nú hefði náðst samkomulag við Boeing um bætur vegna kyrrsetningar MAX þotanna. Í tilkynningu segir að bótaupphæðin sé trúnaðarmál en hún verður að hluta til gerð upp með afsláttum af þeim flugvélum sem þegar hafa verið pantaðar. Einnig gera stjórnendur Southwest ráð fyrir góðum kjörum af Boeing þotum í framtíðinni.

Það kemur ekki skýrt fram í fréttatilkynningu Southwest hvort Boeing hafi einnig greitt flugfélaginu fébætur. Aftur á móti segir í tilkynningu Southwest að stjórn félagsins hafi í kjölfar samkomulagsins heimilað að 125 milljónir dollara, sem samsvarar rúmum 15 milljörðum króna, renni til starfsmanna sem hlutdeild þeirra í hagnaði félagsins í ár.

Líkt og komið hefur fram hefur Icelandair tvívegis samið um bætur við Boeing en upphæð þeirra er trúnaðarmál. Hafa bæturnar verið bókfærðar að hluta til sem farþegatekjur og til lækkunar á kostnaði. Ekki hafa fengist upplýsingar um hvort Icelandair fái einnig afslætti af þeim þotum sem þegar hafa verið pantaðar af Boeing.

Icelandair hyggst kynna flotastefnu sína til næstu framtíðar í byrjun næsta árs og hefur Bogi Nils Bogason, forstjóri félagsins, sagt að til greina komi að skipta alfarið yfir í Airbus.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista