Endurkoma Andra Más í bígerð

Ný ferðaskrifstofa tekur til starfa nú í janúar og forsvarsmaður hennar er Andri Már Ingólfsson. Arion banki reynir nú að koma fyrrum ferðaskrifstofuveldi hans í verð.

Vörumerki hinnar nýju ferðaskrifstofu Andra Más Ingólfssonar.

Andri Már Ingólfsson, stofnandi og fyrrum eigandi, Primera Travel Group vinnur nú að stofnun ferðaskrifstofunnar Aventura. Andri er sjálfur skráður fyrir léninu Aventura.is og í dag birtust svo  starfsauglýsingar frá ferðaskrifstofunni Aventura Holidays á vefnum Alfreð. Þar er auglýst eftir sölufólki til að vinna með „reynsluboltum úr íslenskri ferðaþjónustu“ í að byggja upp leiðandi fyrirtæki sem bjóða á bestu kjör á íslenskum ferðamarkaði eins og segir í auglýsingunni.

Þar kemur jafnframt fram að Aventura Holidays hefji rekstur nú í janúar og að ætlunin sé að „bjóða Íslendingum spennandi ferðaframboð með því að nýta sér nýjustu tækni í þróun bókunarkerfa til að finna hægkvæmustu ferðir fyrir viðskiptavini sína.“

Það er því ekki annað að sjá en að Andri Már sé á leiðinni í ferðageirann á ný en núna eru sex mánuðir liðnir frá því að Arion banki tók yfir ferðskrifstofurnar sjö sem áður tilheyrðu Primera Travel Group. Þá var það yfirlýst markmið bankans að selja þær sem fyrst en í dag eru þær allar óseldar nema ein.

Heimsferðir, sem lögðu grunninn að veldi Andra Más á sínum tíma, eru til að mynda ennþá til sölu og spurning hvort nýjasta útspil stofnanda Heimsferða dragi úr möguleika bankans á að koma fyrirtækinu í verð. Og í ljósi þess að ferðaskrifstofan heitir Aventura Holidays þá er stefnan mögulega sett á rekstur í útlöndum líka. Á Indlandi er reyndar starfandi ferðaskrifstofa með sama nafni.

NÚ GETUR ÞÚ STUTT VIÐ BAKIÐ Á TÚRISTA