Ferðamannafjöldinn í nóvember endurmetinn

Það komu aðeins færri ferðamenn til Íslands í nóvember en fyrstu tölur Ferðamálastofu gáfu til kynna.

Mynd: Nicolas J Leclercqlas J Leclercq / Unsplash

Um áratugaskeið hefur það tíðkast að handtelja alla ferðamenn sem fljúga frá Keflavíkurflugvelli og flokka þá eftir þjóðernum. Þessi aðferð var lögð niður um þarsíðustu mánaðamót sem hluti af sparnaðaraðgerðum Isavia líkt og Túristi greindi frá nýverið. Í staðinn er notast við handahófskennt úrtak til að meta ferðamannastrauminn.

Ferðamálastofa ber nú ein kostnað af talningunni á fjölda ferðamanna en eftir að ferðaþjónustan varð einn af burðarásum þjóðarbúsins hefur sú tala verið einn mikilvægasti hagvísirinn hér á landi.

Í byrjun þessarar viku birti Ferðamálastofa svo tölur yfir fjölda ferðamanna í nóvember og niðurstaðan var minnsti samdráttur en mælst hefur frá falli WOW eða 11,6 prósenta niðursveilfa. Það eitt og sér vakti athygli því áætlunarferðum til og frá landinu fækkaði um nærri fjórðung á tímabilinu.

Og svo miklu færri flugferðir hefðu, miðað við reynslu síðustu mánaða, átt að kalla á meiri fækkun í fjölda ferðamanna. Túristi leitaði svara við þessum mun hjá Ferðamálastofu í vikunni og nú hefur stofnunin sent frá sér endurskoðaða tölu. Nú nemur samdrátturinn í nóvember metinn 12,7 prósent.

Í tilkynningu á heimasíðu Ferðamálastofu segir að vegna tæknilegra örðugleika hafi þurft að leiðrétta áætlaða hlutfallsskiptingu milli þjóðerna í farþegatalningu á Keflavíkurflugvelli í október og nóvember. Þar segir jafnframt að heildarfjöldi brottfararfarþega sé óbreyttur og breytingin hafi lítil áhrif á heildarmyndina.

En þó breytingin þar sé ekki ýkja mikil þá eru breytingar á fjölda eftir þjóðernum í sumum tilvikum þónokkrar. Mest í tilfelli Ítala því áður var talað um  47 prósent fjölgun í þeirra hópi en núna fjórðungs samdrátt.

Athygli vekur líka mikil fjölgun franskra ferðamanna á sama tíma og framboð á flugi til Parísar hefur dregist saman. Skýringin á því gæti legið í því að nú flýgur Transavia hingað til lands yfir háveturinn og meginþorri farþega félagsins eru væntanlega erlendir ferðamenn. Það er vísbending um að tengifarþegar hafi verið bróðurpartur farþega í Parísarflugi WOW air.