Ferða­manna­fjöldinn í nóvember endur­metinn

Það komu aðeins færri ferðamenn til Íslands í nóvember en fyrstu tölur Ferðamálastofu gáfu til kynna.

Mynd: Nicolas J Leclercqlas J Leclercq / Unsplash

Um áratuga­skeið hefur það tíðkast að hand­telja alla ferða­menn sem fljúga frá Kefla­vík­ur­flug­velli og flokka þá eftir þjóð­ernum. Þessi aðferð var lögð niður um þarsíð­ustu mánaðamót sem hluti af sparn­að­ar­að­gerðum Isavia líkt og Túristi greindi frá nýverið. Í staðinn er notast við handa­hófs­kennt úrtak til að meta ferða­manna­strauminn.

Ferða­mála­stofa ber nú ein kostnað af taln­ing­unni á fjölda ferða­manna en eftir að ferða­þjón­ustan varð einn af burða­rásum þjóð­ar­búsins hefur sú tala verið einn mikil­væg­asti hagvís­irinn hér á landi.

Í byrjun þess­arar viku birti Ferða­mála­stofa svo tölur yfir fjölda ferða­manna í nóvember og niður­staðan var minnsti samdráttur en mælst hefur frá falli WOW eða 11,6 prósenta niður­sveilfa. Það eitt og sér vakti athygli því áætl­un­ar­ferðum til og frá landinu fækkaði um nærri fjórðung á tíma­bilinu.

Og svo miklu færri flug­ferðir hefðu, miðað við reynslu síðustu mánaða, átt að kalla á meiri fækkun í fjölda ferða­manna. Túristi leitaði svara við þessum mun hjá Ferða­mála­stofu í vikunni og nú hefur stofn­unin sent frá sér endur­skoðaða tölu. Nú nemur samdrátt­urinn í nóvember metinn 12,7 prósent.

Í tilkynn­ingu á heima­síðu Ferða­mála­stofu segir að vegna tækni­legra örðug­leika hafi þurft að leið­rétta áætlaða hlut­falls­skipt­ingu milli þjóð­erna í farþe­ga­taln­ingu á Kefla­vík­ur­flug­velli í október og nóvember. Þar segir jafn­framt að heild­ar­fjöldi brott­far­arfar­þega sé óbreyttur og breyt­ingin hafi lítil áhrif á heild­ar­myndina.

En þó breyt­ingin þar sé ekki ýkja mikil þá eru breyt­ingar á fjölda eftir þjóð­ernum í sumum tilvikum þónokkrar. Mest í tilfelli Ítala því áður var talað um  47 prósent fjölgun í þeirra hópi en núna fjórð­ungs samdrátt.

Athygli vekur líka mikil fjölgun franskra ferða­manna á sama tíma og framboð á flugi til Parísar hefur dregist saman. Skýr­ingin á því gæti legið í því að nú flýgur Transavia hingað til lands yfir hávet­urinn og megin­þorri farþega félagsins eru vænt­an­lega erlendir ferða­menn. Það er vísbending um að tengifar­þegar hafi verið bróð­urpartur farþega í París­arflugi WOW air.