Hættir hjá Íslandsstofu

Sem forstöðumaður hjá Íslandsstofu hefur Inga Hlín Pálsdóttir farið fyrir stórum verkefnum í íslenskri ferðaþjónustu síðastliðinn áratug.

Inga Hlín Pálsdóttir. Mynd: Íslandsstofa

Inga Hlín Pálsdóttir sem verið hefur forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu um langt árabil hefur sagt starfi sínu lausu. Þetta kemur fram í færslu frá henni á Facebook fyrr í dag. Þar segir Inga Hlín að hún hafi ákveðið að hætta hjá Íslandsstofu eftir 10 ára starf en áður hafði hún unnið hjá útflutningsráði, forvera Íslandsstofu.

Inga Hlín hefur síðustu ár stýrt samræmdu kynningar- og markaðsstarfi fyrir Ísland, þar á meðal Inspired by Iceland frá upphafi. Hún hefur einnig verið talsmaður ferðaþjónustunnar á erlendum vettvangi og tekið þátt í ýmsum verkefnum er snúa að mörkun þjóða þar á meðal sameiginlegu mörkunarverkefni Norðurlandanna.

Í fyrrnefndri Facebook færslu segir Inga Hlín að það hafi verið heiður að kynna land og þjóð á erlendum vettvangi með frábæru samstarfsfólki og samstarfsaðilum. „Verkefnin hafa verið mörg og skemmtileg, hvort sem er erlendis eða innanlands; í ferðaþjónustu, skapandi greinum og/eða öðrum atvinnugreinum. Inspired by Iceland hefur vaxið og dafnað. Við höfum nýtt tækifærin og byggt upp orðspor Íslands sem áfangastaðar en líka tekist á við nokkur eldgos og mikla umbreytingatíma í íslenskri ferðaþjónustu. Við getum verið stolt af þeim árangri. Ímynd lands og þjóðar verður mér ávallt hugleikin. Ég veit að við verðum öll innblásin af Íslandi „Inspired by Iceland“ til framtíðar. Takk kæru samstarfsfélagar og félagar í ferðaþjónustu og öðrum greinum fyrir gott samstarf! Þið munið svo að samstarf eykur slagkraft,“ segir Inga Hlín að lokum.

Ekki kemur fram hvaða verkefni taka við henni eftir að tímanum hjá Íslandsstofu lýkur formlega.