Heimila samruna Grayline og RSS

Samkeppniseftirlitið setur sig ekki upp á móti því að Reykjavik Sightseeing og Grayline sameinist. Eigendur þess fyrrnefnda verða með meirihluta í sameinuðu félagi.

airportexpress
Mynd: Grayline

Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt kaup Reykjavík Sightseeing á rekstrartengdum eignum Allrahanda GL, sérleyfishafa Gray Line á Íslandi. Í frétt Viðskiptablaðsins segir að eftirlitið hafi komist að þeirri niðurstöðu að samruni félaganna raski ekki samkeppni með alvarlegum hætti á skilgreindum samkeppnismörkuðum samruna málsins.

„Það er því niðurstaða eftirlitsins að viðkomandi samruni leiði ekki til þess að markaðsráðandi staða verði til eða styrkist eða að samruninn leiði til þess að samkeppni raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti.“

Samruni rútufyrirtækjanna tveggja á sér langan aðdraganda því í byrjun maí sagði Túristi frá því að unnið væri að sameiningu. Afkoma félaganna var ekki góð á síðasta ári því samanlagt töpuðu þau tæplega milljarði króna á síðasta ári. Tap Allrahanda nam 516 milljónum á síðasta ári og jóskt um 321 milljón milli ára á meðan tap RSS nam 463 milljónum og jókst um 366 milljónir milli ára. Þá var eigið fé RSS neikvætt um 47 milljónir króna í lok síðasta árs samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins.

Tekjur Allrahanda GL voru voru tæplega 3,1 milljarður króna á síðasta ári á meðan samanlögð velta Reykjavík Sightseeing og dótturfélagsins Airport Direct nam samtals rúmlega 1,5 milljörðum. Tap sem hlutfall af tekjum var því um 17% hjá Allrahanda en um 30% hjá Reykjavík Sightseeing. Þrátt fyrir að umsvif Allrahanda séu töluvert meiri þá verður eigendur þess í minnihluta í sameinuðu félagi.

Stærsti eigandinn verður þá PAC1501 sem er í eigu framtakssjóðsins Horn III sem er í rekstri Landsbréfa. Allrahanda mun svo fara með minnihluta en í því félagi er framtakssjóðurinn Akur, sem er í rekstri Íslandssjóða, með 49 prósent hlut.