Hópur skiptifarþega ekki eins fámennur í 44 mánuði

Rétt um 90 þúsund farþegar nýttu sér Keflavíkurflugvöll í nóvember til að millilenda á leiðinni yfir Norður-Atlantshafið. Svo fáir hafa þeir ekki verið síðan í mars árið 2016.

Mynd: Isavia

Það fóru í heildina 435 þúsund farþegar um Leifsstöð í síðasta mánuði sem er 31 prósent færri en frá sama tíma í fyrra. Langmesti samdrátturinn er fjölda skiptifarþega því þeim fækkaði um sextíu af hundraði. Voru þeir samtals rétt um 90 þúsund en fjöldi þessa farþegahóps hefur ekki farið undir hundrað þúsund síðan í ársbyrjun 2016. Þá var Ameríkuflug WOW air að komast á fleygiferð með áætlunarflugi til Los Angeles og San Francisco, tveggja fjölmennustu borga Kaliforníu. Það ár bættist líka við flug til New York, Montréal og Toronto.

Núna er staðan allt önnur og Icelandair eitt um áætlunarflug héðan til Bandaríkjanna og Kanada í vetur. Því til viðbótar leggur Icelandair nú höfuðáherslu á farþega sem eru á leið til Íslands í stað þeirra sem eru á leið milli Norður-Ameríku og Evrópu. Hlutfall tengifarþega hjá Icelandair hefur því lækkað niður í 44 prósent í ár en vægi þeirra mun ekki fara mikið neðar líkt og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, sagði í viðtali við Túrista í síðustu viku.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista