Hvatningaverðlaun ábyrgrar ferðaþjónustu til Hey Iceland

Í dag var dagur Ábyrgrar ferðaþjónustu haldinn hátíðlegur á Hótel Sögu. Hey Iceland fékk þar sérstök hvatningarverðlaun

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Hugrún Hannesdóttir frá Hey Iceland og Bjarnheiður Hallsdóttir formaður SAF. Mynd: Íslenski ferðaklasinn

Það var forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem afhenti í dag hvatningarverðlaun ábyrgrar ferðaþjónustu. Verðlaunahafinn í ár er Hey Iceland en í rökstuðningi dómnefndar segir að Hey Iceland byggi á traustum grunni Ferðaþjónustu bænda og hafi starfað eftir sjálfbærnistefnu frá árinu 2002. „Fyrirtækið hefur verið þátttakandi í Ábyrgri ferðaþjónustu frá upphafi og sett sér og birt markmið í tengslum við áherslur Ábyrgrar ferðaþjónustu á heimasíðu sinni auk þess sem fyrirtækið hefur sett sér mælikvarða til þess að meta árangur sinn.“

Auk þess er fyrirtækið með gull-umhverfismerki vottað af Vakanum og stefnir Hey Iceland að kolefnisjöfnun á öllu flugi Bændaferða árið 2020 líkt og Túristi fjallaði nýverið um.

„Hey Iceland sýnir fordæmi fyrir aðra aðila í þessum skrefum og á starfsfólk Hey Iceland á hrós skilið fyrir metnaðarfull verkefni á sviði umhverfismála. Þá ber einnig að nefna verkefnið „Hleðsla í hlaði“ sem unnið hefur verið að í samstarfi við fjölda aðila. Fyrirtækið er með sjálfbæra ferðaþjónustu að leiðarljósi og er í einstakri stöðu til að hvetja aðra til góðra verka og vinna saman að verkefnum heimsmarkmiða Sameinuð þjóðanna um sjálfbæra þróun,“ segir jafnframt í rökstuðningi dómnefndar.

Auk þess að afhenda verðlaun dagsins þá hélt forseti Íslands tölu um upplifun sína af því að vera ferðamaður í eigin landi. Frumkvöðlarnir Eyþór Máni Steinarsson, Hannes Árni Hannesson og Sólon Örn Sævarsson sögðu svo frá því hvernig þeir forrituðu vefútgáfu Loftlagsmælisins í 24 tíma hakkaþoni á menningarnótt í sumar.

Það var svo Andri Snær Magnason, rithöfund, sem tók síðastur til máls og vakti fagfólk í ferðaþjónustu til umhugsunar um stöðu greinarinnar þegar kemur að umhverfismálum eins og segir í tilkynningu frá Íslenska ferðaklasanum sem stendur að degi ábyrgrar ferðaþjónustu.