Icelandair einn af hástökkvurunum í Brussel í haust

Icelandair er eitt þeirra félaga sem hefur aukið umsvif sín einna mest í belgísku höfuðborginni nú í haust.

Þota Icelandair við flugstöðina í Brussel. Mynd: Brussels Airport

Brussel er ein þeirra borga sem bæði Icelandair og WOW air sinntu með tíðum ferðum allt árið um kring án nokkurrar samkeppni frá öðrum flugfélögum. Brussels Airlines, umsvifamesta flugfélagið í Belgíu, hefur til að mynda aldrei staðið í Íslandsflugi. Þar með er Icelandair alveg eitt um ferðirnar milli Íslands og Belgíu nú þegar WOW air horfið.

Þessi nýja staða hefur orðið til þess að Icelandair hefur bætt við ferðum til Brussel og komst félagið,bæði í september og nóvember, á lista yfir þau flugfélög sem hafa aukið umsvif sín í Brussel mest. Ekki kemur þó fram í tölum belgískra flugmálayfirvalda hversu marga farþega Icelandair flutti til borgarinnar í hvorum mánuði fyrir sig en samkvæmt talningum Túrista þá flugu þotur Icelandair 23 ferðir til belgísku höfuðborgarinnar í nóvember eða níu fleiri en í nóvember í fyrra.

Þá stóð WOW air reyndar fyrir 26 ferðum til borgarinnar og var því, í flugferðum talið, með nærri tvöfalt meiri fólksflutninga til Brussel en helsti keppinauturinn.