Icelandair hefur flug til Barcelona á ný

Þotur Icelandair munu taka stefnuna tvær fjölmennustu borgir Spánar frá og með vorinu.

Næsta sumar munu þotur Icelandair líka fljúga yfir Barcelona. Mynd: Lucas Neves / Unsplash

Yfir aðal ferðamannatímabilið hefur Icelandair vanalega haldið úti áætlunarflugi til Barcelona en þó ekki síðastliðið sumar. Nú stendur aftur á móti til að taka upp þráðinn þar í borg á ný og mun farþegum félagsins standa til boða tvær ferðir í viku til höfuðborgar Katalóníu frá maí og fram í september. Þetta kom fram á fundi með starfsmönnum félagsins í dag.

Áður hafði Icelandair tilkynnt að einn evrópskur áfangastaður myndi bætast við leiðakerfi þess á næsta ári. Heiti borgarinnar var þá ekki gefið upp en nú liggur fyrir að borgin sem um ræðir er Barcelona, ein allra vinsælasta ferðamannaborg Evrópu.

Með endurkomu Icelandair í Barcelona þá fjölgar þeim valkostum sem farþegar á leið milli Keflavíkurflugvallar og El Prat flugvallarins hafa. Norwegian sinnir nefnilega þessari flugleið allt árið um kring og spænska lággjaldaflugfélagið Vueling flýgur héðan frá heimaborg sinni frá vori og fram á haust.

Auk áætlunarflugs til Barcelona þá býður Icelandair einnig upp á reglulegar ferðir til Madrídar, höfuðborgar Spánar, yfir sumarið.