Indigo Partners kaupa dótt­ur­félag Norwegian

Útrás Norwegian í Argentínu er lokið og reksturinn hefur verið seldur til JetSmart sem er í eigu Indigo Partners.

Mynd: Norwegian

Þó Argentína sé stórt land þá hefur innan­lands­flugið þar ekki gengið sem skildi. Fargjöldin hafa verið mjög há og íbúar landsins því frekar nýtt sér rútu­ferðir sem meðal annars hafa verið niður­greiddar af hinu opin­bera. Forráða­menn Norwegian flug­fé­lagsins sáu hins vegar tæki­færi í Argentínu og fyrir rúmu ári síðan hóf félagið að fljúga milli argentínskra borga og bæja.

Útgerðin er hins vegar í mínus sem skrifast að miklu leyti á þá stað­reynd að kostn­aður Norwegian er að mestu leyti í doll­urum á meðan tekj­urnar eru í argentínskum pesóum. Bágt efna­hags­ástand í landinu hefur hins vegar leikið gjald­miðill grátt og því standa tekj­urnar engan veginn undir kostnaði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali við Geir Karlsen, fjár­mála­stjóra Norwegian, í Dagens Næringsliv í dag í tilefni af því að norska félagið hefur selt dótt­ur­fé­lagið í Argentínu. Kaup­andinn tekur við búinu nú þegar.

Það er flug­fé­lagið JetS­mart frá Chile sem kaupir rekst­urinn en það félag er í eigu Indigo Partners. Sem er fyrir­tækið sem átti í viðræðum um kaup á stórum hlut í WOW air um fjög­urra mánaða skeið síðast­liðinn vetur.