Indigo Partners kaupa dótturfélag Norwegian

Útrás Norwegian í Argentínu er lokið og reksturinn hefur verið seldur til JetSmart sem er í eigu Indigo Partners.

Mynd: Norwegian

Þó Argentína sé stórt land þá hefur innanlandsflugið þar ekki gengið sem skildi. Fargjöldin hafa verið mjög há og íbúar landsins því frekar nýtt sér rútuferðir sem meðal annars hafa verið niðurgreiddar af hinu opinbera. Forráðamenn Norwegian flugfélagsins sáu hins vegar tækifæri í Argentínu og fyrir rúmu ári síðan hóf félagið að fljúga milli argentínskra borga og bæja.

Útgerðin er hins vegar í mínus sem skrifast að miklu leyti á þá staðreynd að kostnaður Norwegian er að mestu leyti í dollurum á meðan tekjurnar eru í argentínskum pesóum. Bágt efnahagsástand í landinu hefur hins vegar leikið gjaldmiðill grátt og því standa tekjurnar engan veginn undir kostnaði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali við Geir Karlsen, fjármálastjóra Norwegian, í Dagens Næringsliv í dag í tilefni af því að norska félagið hefur selt dótturfélagið í Argentínu. Kaupandinn tekur við búinu nú þegar.

Það er flugfélagið JetSmart frá Chile sem kaupir reksturinn en það félag er í eigu Indigo Partners. Sem er fyrirtækið sem átti í viðræðum um kaup á stórum hlut í WOW air um fjögurra mánaða skeið síðastliðinn vetur.