Isavia auglýsir eftir framkvæmdastjóra

Framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar og upplýsingatækni er heiti á nýrri stöðu innan Isavia. Áhugasamir um starfið hafa frest fram í lok næstu viku til að sækja um.

Það er Isavia sem rekur Keflavíkurflugvöll. Mynd: Isavia

Í framkvæmdaráði Isavia hafa setið níu framkvæmdastjórar auk Sveinbjörns Indriðasonar forstjóra. Í síðustu viku létu tveir af þremur framkvæmdastjórum fyrirtækisins af störfum og þá kom fram að til standi að ráða á ný í aðra stöðuna sem losnaði. Það starf hefur ekki ennþá verið auglýst en aftur á móti er nú laus til umsóknar ný yfirmannsstaða innan Isavia sem kallast framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar og upplýsingatækni.

„Framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar og upplýsingatækni kemur til með að leiða þróun stafrænna lausna til að bæta þjónustu við viðskiptavini og auka skilvirkni í rekstri félagsins með hliðsjón af stefnu og markmiðum Isavia,“ segir í auglýsingu á vef Isavia. Þar kemur jafnframt fram að framkvæmdastjórinn vinni náið með öðrum sviðum Isavia við að greina stafræn tækifæri. Viðkomandi ber einnig ábyrgð á þróun og rekstri núverandi upplýsingakerfa Isavia.

Framkvæmdastjórinn heyrir beint undir forstjóra og mun taka sæti í framkvæmdastjórn félagsins. Umsóknarfrestur er til loka næstu viku.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista