Íslendingar fjölmenna til Vínarborgar

Bættar flugsamgöngur milli Íslands og höfuborgar Austurríkis hafa svo sannarlega eflt ferðamannastrauminn milli landanna.

Skálað í bjór í Vín. Mynd: Ferðamálaráð Vínarborgar / www.peterrigaud.com

Það var í febrúar í ár sem Wizz Air fór jómfrúarferð sína til Íslands frá Vínarborg og er þetta fyrsta heilsárs áætlunarflugið milli Austurríkis og Íslands. Áður takmörkuðust samgöngurnar við næturflug austurrískra flugfélaga hingað á sumrin svo skíðaflug yfir háveturinn.

Núna er aftur á móti hægt að fljúga beint héðan til Vínar allt árið um kring og hefur austurrískum ferðamönnum hér á landi fjölgað hratt í kjölfarið.

Og Íslendingar sjálfir hafa tekið vel í þessa samgöngubót. Fyrstu tíu mánuði ársins fjölgaði þannig íslenskum gistinóttum í Vínarborg um 58 prósent samkvæmt tölum frá þarlendum ferðamálayfirvöldum. Voru gistinæturnar rétt rúmlega tólf þúsund talsins og stóðu um 4.700 Íslendingar undir þeim.

Í samanburði keyptu Íslendingar tæplega þrisvar sinnum fleiri gistinætur í Kaupmannahöfn á sama tíma. Til Kastrup er aftur á móti flogið nokkrum sinnum á dag á meðan ferðir til Vínar eru tvær til þrjár í viku yfir veturinn á vegum Wizz Air.

Í sumar bætast svo við áætlunarflug Austrian Holidays en Icelandair flýgur ekki til Vínar og WOW air gerði það ekki heldur en bauð þó upp á ferðir til Salzburg yfir aðal skíðatímabilið.