Lán gegn veði í flug­vélum

Icelandair gengur frá 4,3 milljarða króna fjármögnun. Í annað sinn í ár leggur félagið fram veð í Boeing þotum sínum.

Mynd: Icelandair

Icelandair hefur gengið frá lána­samn­ingi upp á 4,3 millj­arða króna við banda­ríska bankann CIT Bank. Um er að ræða endur­fjármögnun í kjölfar uppgreiðslu skulda­bréfa­flokks félagsins fyrr á þessu ári samkvæmt því sem segir í tilkynn­ingu. Þar er haft eftir Evu Sóleyju Guðbjörns­dóttur, fram­kvæmda­stjóra fjár­mála­sviðs Icelandair Group, að fjár­mögn­unin renni enn styrkari stoðum undir góða fjár­hags­stöðu Icelandair Group.

Þetta er í annað sinn í ár sem fyrir­tækið tilkynnir um stóra lántöku. Í mars síðast­liðnum fékk Icelandair Group tíu millj­arða króna lán hjá Lands­bank­anum gegn veði í tíu farþega­þotum í eigu flug­fé­lagsins. Nýja lánið er einnig með veð í flug­vélum félagsins. Það stað­festir Ásdís Ýr Péturs­dóttir, upplýs­inga­full­trúi Icelandair, í svari til Túrista.

Líkt og áður hefur komið fram er stefnt að því að klára sölu á 75 prósent hlut í Icelandair­hót­el­unum til malasísku samsteyp­unnar Berjaya Group nú fyrir áramót. Ásdís stað­festir að ennþá sé unnið út frá því að klára söluna fyrir lok árs.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista